26. feb. 2016

Samstarf Garðaskóla og tónlistarskólans

Afrakstur skemmtilegs samstarfs Garðaskóla og Tónlistarskólans í Garðabæ sýndi sig á árlegum skólatónleikum Garðaskóla sem voru haldnir fyrr í mánuðinum
  • Séð yfir Garðabæ

Afrakstur skemmtilegs samstarfs Garðaskóla og Tónlistarskólans í Garðabæ sýndi sig á árlegum skólatónleikum Garðaskóla sem voru haldnir fyrr í mánuðinum. Öllum árgöngum Garðaskóla var þá boðið í gryfjuna í húsnæði skólans til að hlýða á þá nemendur Garðaskóla sem einnig eru nemendur í Tónlistarskóla Garðbæjar. Auk þess stigu nemendur valfagsins Hringekja á stokk en fagið er unnið í samstarfi við tónlistarskólann.

Markmið valfagsins er að nemendur í 9. og 10. bekk öðlist grunnfærni á ritmísku hljóðfærin fjögur: rafgítar, rafbassa, hljómborð og trommur/slagverk. Kennt er á hvert hljóðfæri í nokkrar vikur og í lokin er mynduð hljómsveit og lög æfð í samræmi við getu hópsins. Valfagið spilaði tvö lög á tónleikunum og annað frumsamið!

Tónleikarnir voru undir stjórn Ómars Guðjónssonar og annarra kennara tónlistarskólans. Í frétt á vef Garðaskóla segir að góð stemmning hafi myndast og að áhorfendur hafi sýnt samnemendum sínum bæði virðingu og stuðning við flutninginn.

Fleiri myndir frá tónleikunum eru á vef skólans