19. feb. 2016

Auglýst eftir umsóknum í þróunarsjóði leik- og grunnskóla

Garðabær auglýsir eftir umsóknum í þróunarsjóði leik- og grunnskóla í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær auglýsir eftir umsóknum í þróunarsjóði leik- og grunnskóla í Garðabæ. Markmið með þróunarsjóðunum er að stuðla að framþróun, nýbreytni og öflugra innra starfi skóla í Garðabæ.

Einstaka leikskólakennarar, kennarahópar og aðrir fagaðilar sem starfa við leik- eða grunnskóla í Garðabæ geta sótt um styrk í sjóðina. Sama á við um skólana sem geta sótt um hver fyrir sig eða í sameiningu (tveir eða fleiri) og/eða í samstarfi við aðra fagaðila. Fræðslu og menningarsvið getur einnig sótt um styrk í samstarf við skóla.

Þróunarsjóður grunnskóla hefur heimild til að úthluta allt að 25 milljónum króna á árinu 2016 og þróunarsjóður leikskóla allt að 8 milljónum króna.

Fyrstu úthlutanir úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla fóru fram vorið 2015.Sem dæmi um verkefni sem hafa hlotið styrk má nefna "upplýsingatækni í faggreinum" í Garðaskóla ogverkefni um læsi í leikskólum sem allir leikskólar í Garðabæ sóttu um í sameiningu.

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð eru á vef Garðabæjar.