2. feb. 2016

Félagsstarf eldri borgara á Álftanesi styrkt

Garðabær styrkir starf Félags eldri borgara á Álftanesi (FEBÁ) með árlegu fjárframlagi, að upphæð einni milljón króna á árunum 2016 og 2017
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær styrkir starf Félags eldri borgara á Álftanesi (FEBÁ) með árlegu fjárframlagi, að upphæð einni milljón króna á árunum 2016 og 2017, samkvæmt samkomulagi sem bæjarstjóri og formaður FEBÁ skrifuðu undir í morgun. 

Samkvæmt samkomulaginu verður starfsemi FEBÁ áfram með sama sniði og verið hefur en félagið hefur frá stofnun verið vettvangur samfunda og skapandi athafna eldri borgara á Álftanesi. Félagið stefnir að virkri þátttöku eldra fólks og hefur m.a. farið í ferðalög og dagsferðir. Með samkomulaginu skuldbindur félagið sig til að vinna áfram að framgangi félags- og tómstundastarfs eldri borgara á Álftanesi í samvinnu við fjölskyldusvið Garðabæjar.

FEBÁ hefur aðsetur í Litlakoti á Álftanesi og mun áfram hafa endurgjaldslaus afnot af því húsi, sem og öðrum mannvirkjum í eigu sveitarfélagsins, til starfseminnar.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri sótti eldri borgara á Álftanesi heim í Litlakot þar sem hann skrifað undir samninginn ásamt Mörtu Ormsdóttur, formanni FEBÁ og ræddi við félagsmenn. Að undirritun lokinni stilltu viðstaddir sér upp til myndatöku úti í vetrarsólinni.

Á neðri myndinni eru Gunnar Einarsson og Marta Ormsdóttir.