29. jan. 2016

Safnanótt og Sundlauganótt í Garðabæ

Vetrarhátíð verður haldin í 13. sinn dagana 4. – 7. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Söfn í Garðabæ taka þátt í Safnanótt sem verður haldin föstudagskvöldið 5. febrúar nk. kl. 19-24. Kvöldið eftir laugardaginn 6. febrúar tekur Álftaneslaug þátt í Sundlauganótt frá kl. 16-24.
  • Séð yfir Garðabæ

Vetrarhátíð verður haldin í 13. sinn dagana 4. – 7. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Vetrarhátíð samanstendur af fjórum meginstoðum, Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuði og Ljósalist.  Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skapa skemmtun í skammdeginu og gefa fólki á öllu höfuðborgarsvæðinu tækifæri til að njóta saman menningar og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi.

Safnanótt og Sundlauganótt í Garðabæ

Söfn í Garðabæ taka þátt í Safnanótt sem verður haldin föstudagskvöldið 5. febrúar nk. kl. 19-24. Kvöldið eftir laugardaginn 6. febrúar tekur Álftaneslaug þátt í Sundlauganótt frá kl. 16-24. Fjölbreytt dagskrá verður í boði í söfnum Garðabæjar og Álftaneslaug af þessu tilefni. Ókeypis aðgangur verður í söfnin á Safnanótt og í Álftaneslaug á Sundlauganótt.

Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá dagskrána í Garðabæ á Safnanótt og Sundlauganótt en jafnframt er hægt að sjá dagskrá á vef Vetrarhátíðar, www.vetrarhatid.is

Safnanótt - föstudagskvöldið 5. febrúar - dagskrá í Hönnunarsafni - Króki - Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi

Í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa á Safnanótt frá kl. 19-24. Kvöldið hefst á lestri með vasaljósi fyrir yngstu kynslóðina í safninu á Garðatorgi og svo verður boðið upp á skemmtilegt erindi í flutningi Ólínu Þorvarðardóttur, þjóðfræðings og alþingismanns,  fyrir alla fjölskylduna um álfa og tröll.  Gestir safnsins geta líka pantað sér tíma hjá spákonu sem les í spilin frá kl. 20-22. Tímapantanir verða í afgreiðslu safnins á Safnanótt.  Áhugafólk um norrænt samstarf getur mætt á kynningu kl. 20 hjá Norræna félaginu í Garðabæ um vinabæjamót í Finnlandi næsta sumar.  Þeir sem hafa áhuga á að spreyta sig við ljóðagerð geta tekið þátt í ljóðasmiðju í umsjá Hrafns Andrésar Harðarsonar ljóðskálds kl. 20:30 og síðar um kvöldið verða fjölmörg tónlistaratriði þar sem m.a. nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar koma fram, Agla Bríet ung og efnileg söngkona tekur nokkur lög, rytmísk hljómsveit úr Tónlistarskólanum stígur á stokk og síðast en ekki síst mæta þeir Ómar Guðjónsson gítarleikari og Valdimar Guðmundsson söngvari á svæðið kl. 22:30 og flytja vel valin lög fyrir safngesti. Kvöldið endar svo með bíó og popp.

Í útibúi bókasafnins á Álftanesi er líka opið hús frá 19-24 og þar verður boðið upp á origami/föndur frá kl. 19-21 fyrir áhugasama krakka.  Agla Bríet, nemandi í 9. bekk í Álftanesskóla, kemur einnig fram í Álftanessafninu kl. 20 og kl. 20:30 mæta nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar og flytja tónlistaratriði.  Kvöldið endar svo í góðri bíóstemningu þar sem sýnd verður japönsk verðlaunateiknimynd.

Í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi verður boðið upp á sögusmiðju í framhaldi af erindi um tröll og álfa á Bókasafni Garðabæjar. Sýningin Ísland er svo keramískt er notuð sem innblástur fyrir stuttar frásagnir. Sögusmiðjan hefst kl. 20 og er endurtekin kl. 21:30.  Nemendur úr Fjölbrautaskóla Garðabæjar taka einnig stóran þátt í dagskránni í Hönnunarsafninu þetta kvöld og segja frá áhugaverðum gripum á sýningunni Geymilegir hlutir.  Kl. 21 verður leiðsögn um sýninguna Ísland er svo keramískt og fjölmargar leiðsagnir verða í boði um sýninguna Geymilegir hlutir.

Burstabærinn Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Opið hús verður í Króki á Safnanótt, bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar.

Sundlauganótt í Álftaneslaug – laugardaginn 6. febrúar - dótasund, kajakkynning, öldudiskó, zumba og tónlist

Ókeypis aðgangur verður í Álftaneslaug um á Sundlaugarnótt frá kl. 16 til miðnættis laugardaginn 6. febrúar.  Sundlauganóttin hefst á dótasundi frá kl. 16-18 þar sem yngstu kynslóðinni gefst kostur á að koma með smádót til að leika með í innilauginni í fylgd með fullorðnum.  Kajakklúbburinn Sviði býður sundlaugagestum að prófa kajak í öldulauginni kl. 18.  Öldudiskóið verður á sínum stað um kl. 18:30, þar sem hægt verður að hlusta á hress lög við sundlaugarbakkann úti við og öldulaugin verður sett af stað.  Um kl. 19:30 geta sundlaugargestir prófað zumba í vatni.  Aqua zumba öðru nafni Zumba sundlaugarpartý gefur hressilegri líkamsþjálfun nýja merkingu.  Um kl. 20 stíga ungir og efnilegir nemendur í rytmískri hljómsveit úr Tónlistarskóla Garðabæjar á svið við sundlaugarbakkann og halda stutta tónleika. Til miðnættis verður svo tónlist og notaleg lýsing í sundlauginni fyrir sundlaugargesti.