18. des. 2015

Jólaböll, leynivinaleikir og jólapeysur

Börn og fullorðnir gera sér glaðan dag á vinnustöðum í aðdraganda jólanna
  • Séð yfir Garðabæ

Síðustu dagana fyrir jól gera menn sér gjarnan glaðan dag á vinnustöðum. Í dag eru jólaskemmtanir í grunnskólum bæjarins þar sem börnin og starfsfólkið mæta í betri fötunum og eiga góða samverustund saman. Í Sjálandsskóla var t.d. fluttur helgileikur og boðið upp á tónlistaratriði og kórsöng fyrir yngri nemendur skólans á meðan nemendur í unglingadeild áttu notalegan dag í náttfötum í skólanum. Eftir atriðin í sal dönsuðu nemendur í 1.-4.bekk í kringum jólatréð og 5.-7.bekkur hélt stofujól. Í öðrum grunnskólum bæjarins fara skemmtanir einnig fram í dag með hefðbundnu sniði.

Jólaböll á leikskólum

Á leikskólum hefur ýmislegt verið gert til að stytta biðina eftir jólunum og hafa jólasveinar gjarnan nýtt tækifærið og mætt í skólana til að skemmta sér með börnunum. Jólaball var á Holtakoti fyrr í mánuðinum þar sem bræðurnir Skyrgámur, Giljagaur og Gluggagægir létu sig ekki vanta. Jólasveinarnir dönsuðu og sungu með börnunum og enduðu svo á því að sækja pokana sína og færa börnunum fallegar gjafir. Gluggagægir skemmti sér svo vel að nokkrum dögum síðar var hann mættur á jólaball á Hæðarbóli. Að þessu sinni var hann með harmonikkuna með sér og söng og spilaði fyrir börnin. Á öðrum leikskólum í bænum hafa jólin líka verið undirbúin með skemmtunum, jólaföndri, söngvum og öðru tilheyrandi.

Fullorðna fólkið leikur sér

Fullorðna fólkið leikur sér líka. Þannig hefur t.d. verið leynivinaleikur á mörgum vinnustöðum bæjarins þar sem starfsfólk leitast við að gleðja hvert annað. Allir vinnustaðir bæjarins halda jólagleði þar sem starfsfólk kemur saman og borðar góðan mat ýmist á vinnustaðnum, í heimahúsi eða á veitingahúsi. Á bæjarskrifstofunum var jólapeysudagur í gær og starfsfólk því óvenju skrautlegt til fara. Eins og oft áður báru starfsmenn þjónustuversins af en þær þjónuðu íbúum skreyttar sem jólatré allan daginn og kölluðu óhjákvæmilega fram bros hjá öllum sem áttu leið í þjónustuverið. Í tilefni dagsins kom Guðmundur Andri Thorsson í heimsókn á bæjarskrifstofurnar og las tvo stutta kafla upp úr nýútkominni bók sinni. Fleiri myndir frá jólapeysudeginum eru á facebook síðu Garðabæjar

Þjónustuver og bæjarskrifstofur Garðabæjar verða lokaðar á aðfangadag og gamlársdag en aðra virka daga í kringum hátíðarnar verður hefðbundinn afgreiðslutími.