15. des. 2015

Jólastemmning í jólaskógi

Góð jólastemmning var í fallegu vetrarveðri, logni og frosti í Smalaholti laugardaginn 12. desember þegar Skógræktarfélag Garðabæjar var með opinn jólaskóg
  • Séð yfir Garðabæ

Góð jólastemmning var í fallegu vetrarveðri, logni og frosti í Smalaholti laugardaginn 12. desember þegar Skógræktarfélag Garðabæjar var með opinn jólaskóg. Þá gafst fjölskyldum tækifæri til að velja sér jólatré í skóginum.

Undanfarin ellefu ár hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir jólaskógi í Smalaholti, oft í samstarfi við önnur félög í Garðabæ sem hafa ræktað skógarreiti í holtinu. Í ár var Kvenfélag Garðabæjar samstarfsaðilinn og bauð gestum upp á heitt kakó og piparkökur í Furulundi eftir göngu um skóginn.

Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar segir gaman að sjá stórfjölskyldur koma ár eftir ár í skóginn, velja sér tré til jólanna og upplifa hressandi útivist. Í ár hafi líka nokkrir verið að koma í fyrsta sinn og verið undrandi á þessum fallega og friðsæla stað svo skammt frá byggð.

Eitt af markmiðunum með jólaskóginum er grisjun skógarins sem verður til þess að trén sem eftir standa hafa betra vaxtarrými. "Við umhirðu skógræktarsvæða verður að varast að láta trén vaxa saman þannig að þau skemmi hvert annað. Hjálparsveit skáta í Garðabæ hefur líka hjálpað til við grisjun í skóginum en hún hefur undafarin ár fengið að grisja 100 furur á ári úr Sandahlíð, gegn vægu gjaldi, og selt síðan á Garðatorgi."

Erla Bil vill benda á að Garðabæingar eigi útivistarskóg rétt við byggðina sem fjölskyldur geti heimsótt allan ársins hring til útivistar og yndisauka. "Skógræktarfélag Garðabæjar hefur markvist unnið að því að rækta skóginn við bæjarmörkin undanfarin 25 ár sem og að opna hann fyrir almenningi með lagningu göngustíga,"segir hún.