24. nóv. 2015

Lestrarátak á Krakkakoti

Foreldrar barna á Krakkakoti tóku þátt í 10 vikna lestrarátaki með leikskólanum
  • Séð yfir Garðabæ

Undanfarin ár hefur náttúruleikskólinn Krakkakot haldið svokallaða „bókaviku“ í leikskólanum í tilefni af alþjóðadegi læsis 8. september. Þá hafa börnin komið með bækur að heiman í leikskólann sem hafa verið lesnar saman.

Í tilefni af Þjóðarsáttmála um læsi sem menntamálaráðherra hleypti af stokkunum í haust var ákveðið að setja á fót lestrarátak og hvetja foreldra til að lesa fyrir börn sín. Útbúinn var bókaormur á hverri deild skólans sem lengdist dag frá degi eftir því sem fleiri bækur voru lesnar. Lestrarátakið stóð yfir í 10 vikur og lásu foreldrar alls 1081 bók, samtals 25.361 blaðsíðu. Alls voru lesnar 629 bækur fyrir stúlkur og 452 bækur fyrir drengi.

Hjördís Ólafsdóttir leikskólastjóri á Krakkakoti segir að við mat á verkefninu hafi komið fram að tímabilið sem átakið stóð yfir mætti vera styttra. "Við erum sannfærð um að fleiri bækur hafi verið lesnar, það hafi bara dregið úr ákafanum við að skrifa bókamiða og festa á bókaorminn þegar tíminn var orðin svona langur." Hjördís þakkar foreldrum kærlega fyrir að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni með leiksólanum.