9. nóv. 2015

Fræddust um vindorku

Nemendur í 4. bekkjum Hofsstaðaskóla fengu skemmtilega fræðslu um vindorku þegar tveir starfsmenn Landsvirkjun heimsóttu þá í skólann nýlega.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í 4. bekkjum Hofsstaðaskóla fengu skemmtilega fræðslu um vindorku þegar tveir starfsmenn Landsvirkjunar heimsóttu þá í skólann nýlega.

Fræðslan, sem ætluð er grunnskólanemendum, hefur verið á vegum Háskóla Íslands í Háskólalestinni og Háskóla unga fólksins. Sambærileg fræðsla hefur einnig verið haldin reglulega í Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Fræðslan byggir á lifandi umræðum, leik og handavinnu þar sem börnin hanna og smíða sína eigin vindmylluspaða. Þau sem stóðu að fræðslunni í Hofsstaðaskóla voru Jóhanna Hlín Auðunsdóttir og Baldur Brynjarsson efnafræðingur sem er einmitt fyrrum nemandi í Hofsstaðaskóla.

Bekkirnir eru nú í óða önn að búa til vindmyllur á ganginum fyrir framan stofurnar sínar. Vindmyllurnar eru úr pappír og ekki 77 metra háar eins og vindmyllurnar sem eru á Hafinu fyrir ofan Búrfellsvirkjun en þær gera sitt gang. Nemendur voru mjög áhugasamir og tóku virkan þátt í vinnunni við smíðina á vindmyllunum enda vel undirbúnir fyrir heimsóknina og eru nú margs fróðari um vindmyllur og orku. Nálgast má myndir frá fræðslunni á myndasíðum bekkjanna í myndasafninu á vef Hofsstaðaskóla.