6. nóv. 2015

Fjölbreytt verkefni á HS-leikum

Hofsstaðaskólaleikar (HS-leikar) eru einn af hápunktum skólaársins í Hofsstaðaskóla.
  • Séð yfir Garðabæ

Hofsstaðaskólaleikar (HS-leikar) eru einn af hápunktum skólaársins í Hofsstaðaskóla. Fyrstu leikarnir voru haldnir árið 2008 og tóku þeir við af þemadögum sem þá höfðu skipað fastan sess í skólastarfinu.

Almenn ánægja hefur verið með leikana bæði meðal nemenda og starfsfólks og eru þeir ávallt tilhlökkunarefni. Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að láta nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn fjölbreyttra verkefna sem reyna á mismunandi hæfileika. Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Skipaðir eru leiðtogar sk. fyrirliðar í hverjum hópi. Fyrirliðarnir koma úr röðum elstu nemenda skólans (6. og 7. bekk) og hafa það hlutverk að gæta hópsins síns, styðja og styrkja yngri nemendurna og stuðla að almennri gleði. Þá tvo daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök virðing og gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir gleðina mætir starfsfólk í allra kvikinda líki þessa daga.

Á leikunum er nemendum skipt í 34 hópa sem í eru 13-14 krakkar á mismunandi aldri. Annan daginn eru nemendur í íþróttahúsinu og leysa þar fjölbreytt verkefni sem reyna á ýmsa færni en hinn daginn í skólanum. Stöðvarnar eru alls 34. Að leikunum loknum hljóta þeir þrír hópar sem stóðu sig best viðurkenningu og fyrirliðarnir sem þykja til fyrirmyndar fá einnig sérstaka viðurkenningu.

Á meðal þeirra stöðva sem í boði voru á HS-leikunum 2015 voru:

  • Þekkir þú mig
  • þæfing,
  • kvikmyndatónlist,
  • eldspýtnaþrautir,
  • Actionary,
  • jóga

Hægt er að nálgast myndir frá leikunum á myndasíðu Hofsstaðaskóla.