29. okt. 2015

Afar vel heppnuð sameining

Garðabær er í öðru sæti í úttekt Vísbendingar yfir fjárhagslegan styrk sveitarfélaga árið 2015
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær er í öðru sæti í úttekt Vísbendingar yfir fjárhagslegan styrk sveitarfélaga árið 2015. Garðabær fær einkunnina 8,1 og kemur á eftir Seltjarnarnesi sem trónir á toppnum með einkunnina 9 og er því útnefnt sem draumasveitarfélagið í ár.

Vel heppnuð sameining

Í grein Vísbendingar segir að veik staða nokkurra sveitarfélaga sé mjög alvarleg og eru þar tekin sem dæmi sveitarfélögin Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Kópavogur. Hins vegar veki athygli "að Garðabær og Seltjarnarnes hafa miklu betri tök á sínum fjármálum" og að bæði sveitarfélögin hafi lengi verið í fremstu röð í einkunnagjöf Vísbendingar. Í greininni segir jafnframt að það veki sérstaka athygli hvað Garðabær nái "hratt að hrista af sér álagið" vegna sameiningarinnar við Álftanes sem virðist hafa verið afar vel heppnuð.

Sérstaða Garðabæjar og Seltjarnarness

Allt frá því að Vísbending fór að útnefna draumasveitarfélagið árið 1996 hafa Garðabær og Seltjarnarnes verið í sérflokki. Garðabær hefur sex sinnum verið á toppnum og Seltjarnarnes átta sinnum. Bæði sveitarfélögin hafa líka oft verið í öðru sæti. Vísbending segir eðlilegt að spyrja hvað geri þessi tvö sveitarfélög svo góð og svarar því til að útsvarsprósentan sé hófleg, skuldir sem hlutfall af tekjum litlar og veltufjárhlutfall viðunandi. "Því má segja að öll hlutföll séu mjög hagstæð í sveitarfélögunum," segir í grein Vísbendingar.

Forsendurnar sem Vísbending miðar við í útektinni eru að:

  • skattheimtan sé sem lægst
  • breytingar á fjölda íbúa séu hóflegar
  • afkoma sem hlutfall af tekjum sé sem næst 10%
  • hlutfall nettóskulda af tekjum sé sem næst 1,0
  • veltufjárhlutfall sé nálægt 1.0.