16. okt. 2015

Árleg útikennsla við Vífilsstaðavatn

Nemendur í 7. bekkjum hafa að undanförnu tekið þátt í árlegri útikennslu við Vífilsstaðavatn.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í 7. bekkjum hafa að undanförnu tekið þátt í árlegri útikennslu við Vífilsstaðavatn.

Í Flataskóla hafa nemendur unnið náttúrufræðiverkefni þar sem Vífilsstaðavatn leikur stórt hlutverk. Nemendur lærðu um sjálft vatnið, vatnasvæðið og lífríki þess, gróðurinn, fiskana, smádýrin, fuglana og fleira.

Nemendur hafa tvisvar farið með kennurum sínum hjólandi upp að Vífilsstaðavatni og skoðað umhverfið og unnið ýmis verkefni og skemmt sér vel. Í fyrra skiptið var tilgangurinn að kynnast svæðinu sjálfu, gengið var í kringum vatnið og sumir gengu upp að Gunnhildi. Í seinna skiptið hittu nemendur Bjarna fiskilíffræðing sem hjálpaði þeim að veiða og sagði þeim margt merkilegt um lífið í vatninu. Þegar heim var komið krufu nemendur fiskana og skoðuðu þá vel og vandlega. Myndir úr ferðunum er að finna í myndasafni skólans.

Myndir frá ferð nemenda Sjálandsskóla að Vífilsstaðavatni í myndasafni Sjálandsskóla.

Í boði umhverfisnefndar í 16 ár

Umhverfisnefnd hefur boðið grunnskólum bæjarins upp á útikennslu um lífríki Vífilsstaðavatns undir leiðsögn Bjarna Jónssonar fiskifræðings frá árinu 1999. Kennslan hefur verið ætluð einum árgangi grunnskólanna og hafa skólarnir ákveðið hvaða árgangur taki þátt. Umhverfisnefnd gaf árið 2001 út kennslubók sem er grunnur útikennslunnar, heiti hennar er Vífilsstaðavatn - Gersemi Garðabæjar.