2. des. 2016

Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu 3. desember

Laugardaginn 3. desember verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Athöfnin hefst kl. 16. Margt verður um að vera á Garðatorgi um daginn, jólasveinar koma i heimsókn, tónlist, leiksýning o.fl.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 3. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 47. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan.  Á meðfylgjandi myndum með frétt má sjá jólatréð komið upp á Garðatorg og einnig þegar verið var að flytja það frá Asker í Noregi.  Vinir okkar í Asker birtu myndband af flutningunum á fésbókarsíðu sinni fyrir stuttu.

Dagskrá laugardaginn 3. desember

Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi við ráðhús Garðabæjar. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur fyrir gesti og Hilmar Ingólfsson formaður Norræna félagsins í Garðabæ, býður gesti velkomna. Lene Conradi, forseti bæjarstjórnar í Asker í Noregi, afhendir vinabæjarjólatréð.  Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar, veitir trénu viðtöku. Skólabörn úr Flataskóla syngja nokkur lög fyrir viðstadda og að lokum koma jólasveinar til byggða og flytja jólalög.  Gestir eru hvattir til að klæða sig vel eftir veðri.  

Barnaleikrit í Bókasafninu og ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands

Ýmislegt verður einnig um að vera fyrr um daginn í miðbæ Garðabæjar.  Að venju er leiksýning í Bókasafni Garðabæjar,  sem að þessu sinni hefst kl. 15 þegar Stoppleikhópurinn sýnir ,,Jólin hennar Jóru“. Leiksýningin verður haldin á efri hæð safnsins að Garðatorgi 7.   Þennan dag verður ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands frá kl. 12-17.  Í safninu er hægt að skoða sýningarnar ,,Geymilegir hlutir" og ,, Á pappír"´.  Jóladagatal Hönnunarsafns Íslands verður opnað á hverjum degi í desember í glugga safnsins fram að jólum.

Verslun á Garðatorgi og opnar vinnustofur listamanna

Á Garðatorgi er hægt að byrja jólaverslunina í verslunum á torginu.  Þennan laugardag verða nokkrir listamenn með opnar vinnustofur á torginu þar sem tekið verður á móti gestum og gangandi frá kl. 12-17, sami inngangur og að Gróskusalnum á 2. hæð.

Bílastæði og aðkoma að Garðatorgi

Gestir sem koma akandi geta lagt bílum sínum í bílakjallara á Garðatorgi en einnig eru nóg af stæðum austan og norðan megin við torgið.  Aðkoma inn á Garðatorg frá Vífilsstaðavegi verður lokuð tímabundið á meðan á athöfninni stendur en áfram verður opið inn á Garðatorg frá Bæjarbraut.  

Sjá einnig dagskrá í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar og viðburð á fésbókarsíðu Garðabæjar.

Allir eru velkomnir á Garðatorgið til að taka þátt í jóladagskránni.