9. okt. 2015

Vel heppnuð fræðsludagskrá um Jónas Hallgrímsson

Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla stóð fyrir opinni fræðsludagskrá helgaðri minningu Jónasar Hallgrímssonar undir yfirskriftinni ,,Söngvarinn ljúfi" í Bessastaðakirkju laugardaginn 3. október sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla stóð fyrir opinni fræðsludagskrá helgaðri minningu Jónasar Hallgrímssonar undir yfirskriftinni ,,Söngvarinn ljúfi" í Bessastaðakirkju laugardaginn 3. október sl. Kynnir á dagskránni var Ólafur Proppé.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur ávarpaði fundargesti og komst m.a. svo að orði: ,,Jónas Hallgrímsson var vorboðinn ljúfi í íslensku þjóðlífi, svo að vísað sé til endanlegrar útgáfu hans af ljóðinu sem yfirskrift þessarar samkomu er sótt til. Hann og félagar hans í Fjölni, skólabræður hans héðan úr Bessastaðaskóla,  gengdu mikilsverðu hlutverki við að opna Íslendingum á ný sýn til Evrópu, í menningarmálum, tækniþekkingu, þjóðfélagsgerð, sjálfstjórn, sjálfsvirðingu".

Páll Valsson flutti erindið ,,Fyrst deyr í haga rauðust rós" og Helga Kress flutti erindið ,,Söngvarinn ljúfi" um heimþrá í ljóðum Jónasar. 

Nýtt tónverk eftir Karólínu Eiríksdóttur tónskáld

Við þetta tilefni frumflutti Kvennakór Garðabæjar tónverkið ,,Fuglatal" eftir Karólínu Eiríksdóttur tónskáld og bæjarlistamann Garðabæjar við texta Jónasar Hallgrímssonar.  Einsöng flutti Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran en hún er jafnframt stjórnandi kórsins.

Einnig var tilkynnt um kjör dr. Aðalgeirs Kristjánssonar fv. skjalavarðar sem heiðursfélaga Félags áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla en hann var einn helsti hvatamaður að stofnun félagsins og hefur ávallt verið dyggur stuðningsmaður þess.  Árni Kristjánsson veitti heiðursskjalinu viðtöku.

Meðfylgjandi eru myndir frá fræðsludagskránni sem Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla stóð fyrir.