2. okt. 2015

Skorar á ríkisstjórn Íslands

Bæjarstjórn Garðabæjar skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin.

Áskorunin var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að við núverandi aðstæður sé vart hægt að halda því fram að tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir og sveitarfélögum eru falin í stjórnarskrá Íslands og lögum. Ennfremur sé ljóst að verði ekkert að gert muni rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum og að sveitarfélög muni illa geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum.

Á meðal þeirra breytinga sem nefndar eru í greinargerðinni eru að reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts verði breytt, að allar undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts falli niður, að sveitarfélög fái hlutdeild í almenna hluta tryggingagjaldsins og hlutdeild í sköttum af umferð.

Áskorun til ríkisstjórnar Íslands samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. október 2015