25. sep. 2015

Verum vakandi í nágrannavörslunni

Garðabær, í samstarfi við lögregluna, mun boða til opins fundar með íbúum á næstu vikum þar sem ræddar verða leiðir til að koma í veg fyrir afbrot í bænum
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær mun í samstarfi við lögregluna boða til opins fundar með íbúum á næstu vikum þar sem ræddar verða leiðir til að koma í veg fyrir eða fækka eins og hægt er afbrotum í bænum.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um innbrot í bíla og jafnvel á heimili í Garðabæ. Vegna hennar vill lögreglan hvetja íbúa til að tilkynna um öll slík atvik jafnvel þótt litlu eða engu sé stolið. Aðeins þannig getur lögreglan fylgst með því ef fjölgun verður á slíkum brotum í einhverju bæjarfélagi eða hverfi og brugðist við.

Tökum höndum saman

Íbúar geta komið tillögum að umræðuefnum á íbúafundinum og/eða aðgerðum á framfæri með því að senda tölvupóst á netfangið: gardabaer@gardabaer.is með efnisorðinu Nágrannavarsla.

Höldum nágrannavörslunni lifandi

Á sama tíma er rétt að ítreka mikilvægi nágrannavörslunnar núna þegar skammdegið er að bresta á. Öflug nágrannavarsla er talin vera ein besta forvörnin gegn innbrotum. Um leið er gott að rifja upp grundvallaratriði eins og að gæta að því að læsa bílum og húsum og að skilja verðmæti ekki eftir í bílum.