Haustnámskeið Klifsins að hefjast
Þessa dagana eru haustnámskeiðin í Klifinu að fara af stað hvert af öðru. Enn eru nokkur sæti laus á hinum ýmsu námskeiðum.
Skapandi hugsun skiptir máli í lífinu
Eins og endranær er áhersla lögð á að hvetja ungmenni til að tileinka sér skapandi hugsun og efla trú þeirra á eigin getu, á námskeiðum hjá Klifinu - skapandi fræðslusetri.. „Þannig verða þau betur í stakk búin til að mæta þörfum framtíðarinnar,“ útskýra Ágústa Guðmundsdóttir, og Ásta Sölvadóttir, framkvæmdastýrur í Klifinu. Um 40 mismunandi námskeið verða í boði í Klifinu í haust. Má þar nefna myndlistar- og tónlistarnámskeið, vísindanámskeið, dans, sjálfsstyrkingarnámskeið og margt fleira.
Í Klifinu kynnast þátttakendur hönnunarhugsun og verkfærum í skapandi vinnu. „Börn hafa frjótt ímyndunarafl, eru hugmyndarík og frumleg og undir handleiðslu leiðbeinenda nýta þau eigið hugvit til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Leiðbeinendur beita eflandi kennsluaðferðum til þess að virkja börnin Þeir leitast við að koma til móts við innsæi, tilfinningar, vonir og áhuga þátttakenda, og nota til þess ýmsa miðla, tæki og tól, allt frá blaði og blýanti til nýjustu stafrænnar tækni. Í Klifinu lítum við svo á að sköpun sé kraftur sem hægt sé að virkja,“ segja þær Ágústa og Ásta.
Stöðug þróun
Þær Ágústa og Ásta segja námskeiðin hjá Klifinu í stöðugri þróun og að viðfangsefnin séu sniðin að aldri þátttakenda og áhugasviði. „Margir krakkar vilja ekki festast í einhverju einu heldur prófa sig áfram. Við hvetjum þá til að koma með hugmyndir að nýjum námskeiðum og reynum að koma til móts við þennan hóp. Þar af leiðandi eru námskeiðin hjá okkur síbreytileg, þau taka mið af reynslu fyrri námskeiða og þörfum þátttakenda.“
Skráning fer fram á vef Klifsins, www.klifid.is