4. sep. 2015

Garðabær fær lán á hagstæðum kjörum

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í gær að taka lán að fjárhæð 430 milljónir króna. Lánið fékkst á afar hagstæðum kjörum
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í gær að taka lán að fjárhæð 430 milljónir króna. Lánið fékkst á afar hagstæðum kjörum, með 2,9% vöxtum, eftir útboð á skuldabréfum í stækkuðum skuldabréfaflokki bæjarins. Kjörin sýna ótvírætt styrka fjárhagsstöðu bæjarfélagsins.

Lánsféð verður notað til að fjármagna ýmsar framkvæmdir í bænum en samkvæmt fjárhagsáætlun verður framkvæmt fyrir 1,3 milljarð króna á árinu. Þar af verður 465 milljónum króna varið til framkvæmda við skólabyggingar og er nýja viðbyggingin við Hofsstaðaskóla stærsti liðurinn þar. Einnig verður fjárfest í íþróttamannvirkjum fyrir 140 milljónir króna, m.a. í nýjum gervigrasvelli á Álftanesi og þá er áætlað að verja 305 milljónum króna til gatnagerðar.