19. ágú. 2015

Lagnir endurnýjaðar í Flatahverfi

Miklar framkvæmdir standa nú yfir á Flötum þar sem verið er að skipta út lögnum
  • Séð yfir Garðabæ

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Flatahverfi þar sem verið er að skipta út lögnum bæði þeim sem liggja í gangstéttinni og einnig þeim sem liggja upp að húsum. Um er að ræða lagnir fyrir heitt og kalt vatn, rafmagn og síma/nettengingar. Einnig er verið að skipta um frárennslislagnir undir gangstéttinni og að lokum verða gangstéttar endurnýjaðar. Áætlað er að þessi vinna standi fram að mánaðarmótum október/nóvember.

Vinna við fyrsta áfanga stendur nú yfir, frá Stekkjarflöt að Lindarflöt og síðan verður haldið áfram sem leið liggur eftir Garðaflöt inn að gatnamótum Hagaflatar og Móaflatar.

Óhjákvæmilega fylgir allnokkuð rask þessum framkvæmdum.   Garðabær beinir þeim vinsamlegu tilmælum til íbúa að fara eins lítið um framkvæmdasvæðið og mögulegt er og nota Brúarflöt til að komast út á Vífilsstaðaveg frekar en Stekkjarflöt. Einnig er mjög mikilvægt að leggja ekki bílum upp á gangstétt og loka þar með fyrir umferð gangandi vegfarenda.

Foreldrar eru jafnframt beðnir um að segja börnum sínum að ganga eða hjóla á gangstéttinni við Vífilsstaðaveg frekar en að fara Garðaflötina. Rétt er að fara yfir öruggar gönguleiðir með börnunum áður en skólinn byrjar. Börn á leið í Flataskóla eða Garðaskóla geta farið eftir Vífilsstaðavegi eða farið „neðri leiðina“ og nýtt sér stígana neðst í Lindarflöt/Smáraflöt/Stekkjarflöt og þaðan upp á skólalóðina við Flataskóla.

Vegna framkvæmdanna þarf að loka Stekkjarflöt, Garðaflöt, Lindarflöt og Hagaflöt í nokkra daga eða hluta úr degi en þó á þann hátt að íbúar komast ferða sinna. Þegar Stekkjarflöt verður lokað verður þó eina leiðin fyrir bílaumferð út úr hverfinu um Brúarflöt. Sett verða upp skilti til að láta vita af þessum lokunum.

Þjónustver Garðabæjar tekur við spurningum og athugasemdum vegna framkvæmdanna í síma 525 8500 og í netfanginu, gardabaer@gardabaer.is.