4. ágú. 2015

Viðbygging við Hofsstaðaskóla opnar í ágúst

Ný viðbygging við Hofsstaðaskóla verður opnuð þegar skólahald hefst nú í ágúst
  • Séð yfir Garðabæ
Ný viðbygging við Hofsstaðaskóla verður opnuð þegar skólahald hefst nú í ágúst. Nýbyggingin er alls um 1100 m2 að stærð, á tveimur hæðum. Á neðri hæð eru nýjar verkgreinastofur þ.e. stofur fyrir náttúrfræði, heimilisfræði, myndmennt, smíði og textíl. Á efri hæð eru fyrst og fremst ný stjórnunarrými svo sem afgreiðsla, skrifstofur og aðstaða starfsmanna.

Auk nýbyggingarinnar hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á eldra húsnæði skólans.
Eldri verkgreinastofum hefur til að mynda verið breytt í hefðbundnar kennslustofur og þar sem áður var stjórnunarálma verður nú nýtt og stærra bókasafn. Einnig gert ráð fyrir 3 nýjum stofum fyrir tónlistariðkun og kennslu í skólanum. 

Undirbúningur fyrir þessar viðamiklu framkvæmdir hófst fyrir um 2 árum.  Skólastjórnendur og arkitektar unnu þarfagreiningu og lögðu fram tillögur, í framhaldi hófst fullnaðarhönnun byggingarinnar og gerð útboðsgagna. Verkið var svo boðið út s.l. vor og hefur JÁ- Verk unnið að framkvæmdinni undir verkefnisstjórn Arnars Ásmundssonar.  Öll vinna hefur gengið vel og framkvæmdir hafa að mestu gengið samkvæmt áætlun en erfiður vetur tafði þó nokkuð fyrir, sérstaklega á fyrrihluta árs.

Nú er unnið að lokafrágangi og verður skólinn tilbúinn til kennslu við skólasetningu í ágúst. Einhverjar innframkvæmdir verða þó eftir eins og gjarnt er í svo stóru og flóknu verki en þær munu ekki hafa áhrif á kennslu.

Arkitektar nýbyggingar og breytinga eru hönnuðir skólans, Úti og Inni arkitektar en hönnunarstjóri hefur verið Baldur Ó Svavarsson arkitekt. Verkfræðihönnun hefur verið í höndum VSB verkfræðistofu ehf. en eftirlit með framkvæmdum hefur verið í höndum verkfræðistofunnar Eflu ehf. Þegar framkvæmdum lýkur munu starfsmenn garðyrkjudeildar Garðabæjar koma með blómaker til að fegra umhverfi skólans.