22. júl. 2015

Snyrtilegar lóðir 2015

Eigendur fjögurra einbýlishúsalóða og einnar fjölbýlishúsalóðar fengu í dag afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2015.
  • Séð yfir Garðabæ

Eigendur fjögurra einbýlishúslóða og einnar fjölbýlishúsalóðar fengu í dag, 23. júlí, afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2015. Fífumýri 8-15 var valin snyrtilegasta gatan og viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækis eða stofnunar fékk Hjúkrunarheimilið Ísafold, við Strikið í Sjálandi. 

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Sigríður Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar og Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar afhentu viðurkenningarnar í hátíðarsal Ísafoldar.

Einbýlishúsalóðirnar sem veittar voru viðurkenningar fyrir í ár eru:

  • Bæjargil 32
  • Bæjargil 34
  • Hlíðarbyggð 45
  • Þrastarnes 17

Fjölbýlishúsalóðin sem veitt var viðurkenning fyrir er:

  • Kirkjulundur 6-8

Lýsingarnar hér á eftir eru úr umsögn umhverfisnefndar um lóðirnar.

Lóðir íbúðarhúsnæðis:

Bæjargil 32

Bæjargil 32

 

 

 

 


Samliggjandi tvö raðhús eru til fyrirmyndar í umhverfinu. Bæjargil 32 er enda raðhúsalóð þar sem hver fermeter er nýttur fyrir gróður eða setbekki með hirslum. Sérstaklega smekkleg lóð. Byggingarár 1991.

 

Bæjargil 34

Bæjargil 34

 

 

 

 


Næsta raðhúsalóð, Bæjargil 34, er ekki síðri í hugmyndaflugi og rýmisnotkun, fyrir fallegan gróður og dvalarstað fjölskyldunnar. Lóðin er lítil með bakgarð og framgarð við aðkomu hússins. Byggingarár 1991.
Athygli verkur að þessir nágrannar hafa tekið sig saman um að taka í fóstur lóðakanta aðliggjandi botnlaga með því að gróðursetja fjölbreyttan runnagróður í kantinn, enda snýr hann beint við aðkomu þeirra. Þetta mættu fleiri garðeigendur taka sér til fyrirmyndar, í stað þess að ergja sig yfir ósnyrtum bakköntum nágrannalóða.

 

Hlíðarbyggð 45

 Hlíðarbyggð 45

 

 

 


Garðurinn að Hlíðarbyggð 45 er sérstaklega snyrtilegur og vel hirt lóð við endaraðhús neðst í botnlanga að Bæjarbraut. Á lóðinni vaxa falleg stór tré sem setja gróin og fallegan svip á umhverfið. Þar eru safnkassar sem umhverfisnefnd er alltaf ánægð með að sjá í görðum. Framlóðin skartar blómskrúði í steinabeði, sem er mjög smekklegt. Byggingarár 1975.

 

Kirkjulundur 6-8 (fjölbýli)

Kirkjulundur 6-8

 

 

 

 


Hugmynd að fjölbýlinu að Kirkjulund 6 – 8 kom fyrst fyrir byggingarnefnd í nóvember 1988 á íbúðum eldriborgara í miðbæ Garðabæjar og eignaskipta-samningur gerður fyrir „íbúðir fyrir aldraða Garðabæ“ í júní 1990. Lóðin var hönnuð af Landslagi ehf.
Íbúar Kirkjulundar hafa gegnum árin hugsað vel um gróðurinn í garðinum og viljað hafa lóðina snyrtilega.

 

Þrastarnes 17

Þrastarnes 17

 

 

 

 


Frá umsögn 2005 m.a.: „Garðurinn er sérstaklega snyrtilegur, hann er að hluta endurgerður. Mörg stór tré hafa verið felld, svo garðurinn opnast mót götunni. Þetta er brýn þörf í eldri/grónum hverfum bæjarins. Garðurinn skiptist í tvo megin hluta, steinabeð í framgarði og gott rými til leikja í bakgarði. Milli þessarar garðhluta er dvalarrýmið á timburpalli.“
Garðurinn er í stöðugri þróun, nú setur mestan svip á garðinn formklippt birkitré og runnar. Aðkoman er smekkleg og opin móti götunni. Byggingarár hússins er 1976.

  

Viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækis eða stofnunar hljóta í ár:

Hjúkrunarheimilið Ísafold við Strikið

 Hjúkrunarheimilið Ísafold

 

 

 


Hjúkrunarheimilið Ísafold við Sjáland í Garðabæ var   opnað formlega 5. apríl 2013. Stærð lóðarinnar er um 5.000 m² sem hönnuð er af landslagsarkitektum Landmótunar.

Í lýsingu á hönnun lóðarinnar segir: „Við dvalarheimilið er opinn dvalargarður sem snýr í suður milli byggingarálmanna. Unnið var með náttúrulegar klappir og dvalarsvæði, gróður og gönguleiðir. Einnig er á lóðinni aflokaður dvalargarður, sérstaklega ætlaður heimilisfólki á lokaðri deild. Garðurinn er einfaldur og þægilegur, með upphækkuð beð og sérútbúinn ruggubekk. Aðkomusvæði og bílastæði voru hönnuð með aðkomu allra í huga.“
Vorið 2013 þökulögðu ungmenni í sumarvinnu hjá Garðabæ lóðina og gerðu hana þar með græna.

Viðurkenning fyrir snyrtilega götu og opið svæði

Fífumýri 8-15 - snyrtilegasta gatan

Fífumýri 8-15, snyrtilegasta gatan 2015

 

 

 

 

 
Fífumýri 8 – 15 er sérstaklega gróðursæl gata í nálægð við Arnarneslæk. Þar sem gróður garðanna umvefur umhverfið með fjölbreyttum trjáa- og runnagróðri. Íbúarnir eru samstilltir með að halda nærumhverfi sínu snyrtilegu.