30. jún. 2015

Hátíðleg gróðursetning í Lundamóa

Skógræktarfélag Garðabæjar og umhverfisnefnd Garðabæjar stóðu að gróðursetningar athöfn í Lundamóa laugardaginn 27. júní í tilefni af því að 35 ár eru liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands.
  • Séð yfir Garðabæ

Skógræktarfélag Garðabæjar og umhverfisnefnd Garðabæjar stóðu að gróðursetningar athöfn í Lundamóa laugardaginn 27. júní í tilefni af því að 35 ár eru liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna til að verða þjóðkjörinn forseti og í ár eru 100 ár frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. 

Þrjú birkitré voru gróðursett að hætti frú Vigdísar, Arna Rún Atladóttir, 8 ára, gróðursetti tré fyrir stúlkur, Jökull Snær Gylfason, 17 ára, gróðursetti tré fyrir drengi og þau eru bæði félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar. Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, flutti ávarp við athöfnina og gróðursetti þriðja tréð fyrir komandi kynslóðir.  Erla Bil Bjarnardóttir formaður Skógræktarfélags Garðabæjar sagði frá sögu Lundamóa sem er opið svæði austan við Lundahverfi sem hallar að Reykjanesbraut.  Fyrstu gróðursetningar í Lundamóa voru á árunum 1984-1988 og einnig hafa þar verið ýmsar gróðursetningarathafnir áður, t.d. á vinabæjamótum 1992 og 2012.  Í athöfninni síðastliðinn laugardag gátu gestir notið harmonikkutóna, söngs og samverustundar í skjóli skógarins í Lundamóa.

Skógræktarfélag Íslands setti upp viðburð á fésbók þar sem hægt er að sjá myndir og fréttir frá gróðursetningarathöfnum sem fóru fram víðs vegar um landið síðastliðinn laugardag.  Þar er meðal annars hlekkur í  myndband frá athöfninni í Lundamóa.