25. jún. 2015

Geymilegir hlutir í Hönnunarsafninu

Geymilegir hlutir er yfirskrift sýningar sem nú stendur yfir í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg. Á sýningunni eru sýndir úrvalsmunir úr safneign Hönnunarsafnsins sem varpa ágætu ljósi á þá breidd sem einkennir söfnunarsvið Hönnunarsafnsins. Á sýningunni má skoða módel af byggingu Högnu Sigurðardóttur að Bakkaflöt 1 í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Geymilegir hlutir er yfirskrift sýningar sem nú stendur yfir í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg.  Á sýningunni eru sýndir úrvalsmunir úr safneign Hönnunarsafnsins sem varpa ágætu ljósi á þá breidd sem einkennir söfnunarsvið Hönnunarsafnsins. Á sýningunni má skoða módel af byggingu Högnu Sigurðardóttur að Bakkaflöt 1 í Garðabæ, en einnig Appollo stól Gunnars Magnússonar og fatnað íslenskra tískuhönnuða og listamanna. Nokkrir lampar eru til sýnis, meðal annars Heklulampi þeirra Péturs B. Lútherssonar og Jóns Ólafssonar en Heklulampinn var framleiddur í mörg ár í Danmörku og seldur víða.

Meirihluti safneignar safnsins eru gjafir og á sýningunni geta gestir lesið sér til gagns og fróðleiks ýmsa texta um það af hverju ákveðnum hlutum er safnað. Frásagnir hönnuða má einnig finna og í aftara rými sýningarinnar er ,,safnið sett upp á röngunni". Þar er unnið á virkum dögum við að skrá og ljósmynda muni og þannig geta gestir skyggnst inn fyrir þröskuldinn að svæði sem sjaldnast snýr að gestum. Sýningin Geymilegir hlutir er vísir að fastri sýningu safnsins, en munum verður skipt út jafnt og þétt á næstu mánuðum og sýningin því síbreytileg.

Á vef Hönnunarsafnsins, www.honnunarsafn.is, má lesa nánar um sýninguna og safnið. Einnig er hægt að fylgjast með starfssemi safnsins á fésbókarsíðu þess.