19. jún. 2015

Góð þátttaka í Kvennahlaupinu

Góð þátttaka var í Kvennahlaupinu sem fór fram laugardaginn 13. júní sl. Um 14 000 konur tóku þátt á yfir 80 stöðum út um allt land og á um 16 stöðum í 10 löndum. Í kringum 4.000 konur hlupu í Garðabænum, 1.600 í Mosfellsbæ, 300 á Akureyri og um 500 konur hlupu í Reykjanesbæ. Veður var eins og best er á kosið þegar hlaupakonur á öllum aldri mættu á Garðatorgið til að taka þátt í hlaupinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Góð þátttaka var í Kvennahlaupinu sem fór fram laugardaginn 13. júní sl. Um 14 000 konur tóku þátt á yfir 80 stöðum út um allt land og á um 16 stöðum í 10 löndum. Í kringum 4.000 konur hlupu í Garðabænum, 1.600 í Mosfellsbæ, 300 á Akureyri og um 500 konur hlupu í Reykjanesbæ. Veður var eins og best er á kosið þegar hlaupakonur á öllum aldri mættu á Garðatorgið til að taka þátt í hlaupinu. 

Fyrir hlaup var upphitun á Garðatorgi og þar stigu á svið konur af þremur kynslóðum, þær Sigrún Gísladóttir fyrrum skólastjóri, Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur og Ingunn Arna Kristinsdóttir 15 ára nemi, og fluttu hvatningarávörp til kvenna þar sem fjallað var um meðal annars jafnrétti og konur voru minntar á að nýta kosningarrétt sinn.

Elsti þátttakandinn var Sigurlaug Garðarsdóttir, 94 ára, sem tók þátt í hlaupinu í Garðabæ. Sígríður fékk grip sem ÍSÍ og Stjarnan gáfu til minningar um Lovísu Einarsdóttir, íþróttakennara og upphafskonu Kvennahlaupsins.

 Á fésbókarsíðu Garðabæjar eru fleiri myndir frá Kvennahlaupinu sl. laugardag.

Táknrænar kosningar mannréttinda- og forvarnarnefndar

Í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi stóð mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar fyrir táknrænum kosningum á Garðatorgi þegar Kvennahlaupið fór fram.  Allir gátu tekið þátt í kosningunum fyrir og eftir hlaup og góð þátttaka var í kosningunni. Það var ánægjulegt að sjá mæður kenna börnum sínum hvernig ætti að kjósa og útskýra merkingu þess sem kosið var um.  Á kjörseðlinum var hægt að kjósa jöfn laun fyrir bæði kyn, frelsi frá staðalímyndum, fleiri konur í áhrifastöður og allt ofantalið auk þess sem hægt var að tilgreina annað.  Kosningakassinn stendur þessa vikuna á Garðatorgi fyrir framan Bókasafn Garðabæjar og kjörseðlar eru fáanlegir safninu fyrir þá sem vilja áfram taka þátt í þessum táknrænu kosningum.

Myndlistarfélagið Gróska stóð fyrir örsýningu á Kvennahlaupsdaginn þar sem þemað var ,,minni kvenna“ í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna.  Um 30 myndlistarmenn sýndu verk sín í Gróskusalnum og einnig var hægt að skoða verk á trönum á Garðatorginu.  Stöðugur straumur var af gestum og gangandi til að skoða sýninguna að loknu hlaupi.

Úthlutun úr 19. júní sjóði

19. júní sjóður var stofnaður í tengslum við kvennahlaup ÍSÍ í Garðabæ. Markmið hans er að styðja við íþróttir kvenna.  Að loknu Kvennahlaupi er tilkynnt um hver hlýtur úthlutun úr sjóðnum hverju sinni. Í ár var það Erla Ásgeirsdóttir skíðakona sem hlaut styrk að upphæð 200 000 kr.  Markmiðið með styrkveitingunni er að gera Erlu kleift að halda áfram afreksáætlun sinni og komast til æfinga við bestu aðstæður á undirbúningstímabili skíðamanna nú í haust. 
Erla hefur verið í A-landsliði Íslands undanfarin 3 ár og náði hún lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Sochi 2014 og keppti þar.  Erla keppti á HM fullorðinna í Colorado 2015 og einnig á HM unglinga 2015.