12. jún. 2015

Táknrænar kosningar á Kvennahlaupsdaginn

Laugardaginn 13. júní fer Kvennahlaup Sjóvá ÍSÍ fram í 26. sinn. Kvennahlaupið hefur ávallt farið fram í júní eða sem næst kvenréttindadeginum og í ár eru liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi þann 19. júní 1915. Af því tilefni býður mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar öllum að taka þátt í táknrænum kosningum á Kvennahlaupsdaginn 13. júní.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 13. júní fer Kvennahlaup Sjóvá ÍSÍ fram í 26. sinn.  Fjölmennasta hlaupið er að venju í Garðabæ og í fyrra voru það um 4500 konur sem lögðu leið sína á Garðatorgið til að taka þátt í hlaupinu.  Upphitun hefst á Garðatorgi kl. 13.30 en hlaupið sjálft byrjar kl. 14.  Eins og áður er boðið upp á þrjár mislangar vegalengdir: 2, 5 og 10 km.  Hér má sjá kort af hlaupaleiðum.  Á vef Kvennahlaupsins er hægt að sjá nánari upplýsingar um skráningu í hlaupið og Kvennahlaupið er einnig með fésbókarsíðu þar sem má finna ýmsan fróðleik um hlaupið.

Táknrænar kosningar í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Kvennahlaupið hefur ávallt farið fram í júní eða sem næst kvenréttindadeginum og í ár eru liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi þann 19. júní 1915.  Af því tilefni býður mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar öllum að taka þátt í táknrænum kosningum á Kvennahlaupsdaginn 13. júní.  Sérútbúinn hátíðarkjörkassi verður settur upp á Garðatorgi þegar Kvennahlaupið fer fram. Allir geta tekið þátt í kosningunum.

Dagskrá á torginu - örmyndlistarsýning o.fl.

Að venju verður einnig dagskrá á torginu að loknu hlaupi.  Gestir og gangandi sem eiga leið um torgið geta kíkt við á örsýninguna ,,Minni kvenna" sem myndlistarmenn úr Grósku, ásamt gestalistamönnum úr Myndlistarfélagi Kópavogus og Litku myndlistarfélagi setja upp í Gróskusalnum á Garðatorgi 13. júní frá kl. 13-17 í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna.