12. jún. 2015

Stofnstígur og hljóðvarnir við Hafnarfjarðarveg yfir Arnarneshæð

Bæjaryfirvöld í Garðabæ í samstarfi við Vegagerðina áforma að byggja hjóla- og göngustíg yfir Arnarneshæð milli Hafnarfjarðarvegar og lóða við Hegranes og Súlunes á Arnarnesi. Stígurinn er í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Arnarnes og er mikilvægur áfangi í uppbyggingu samfelldra hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautunum tveimur sem liggja í gegnum Garðabæ, Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjaryfirvöld í Garðabæ í samstarfi við Vegagerðina áforma að byggja hjóla- og göngustíg yfir Arnarneshæð milli Hafnarfjarðarvegar og lóða við Hegranes og Súlunes á Arnarnesi. Stígurinn er í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Arnarnes og er mikilvægur áfangi í uppbyggingu samfelldra hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautunum tveimur sem liggja í gegnum Garðabæ, Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut.
Vaxandi umferð hjólreiðafólks yfir Arnarnes hefur eins og íbúar þekkja hingað til verið um húsagöturnar Hegranes og Súlunes ýmist á gangstéttum eða í götunni. Göturnar eru á köflum brattari en viðmið um göngu- og hjólastíga gera ráð fyrir auk þess sem leiðin þverar innkeyrslur á lóðir íbúðarhúsa með tilheyrandi hættu og óþægindum.

Fyrirliggjandi er forhönnun stígs og hljóðvarna, sem rýnd hefur verið af umferðaröryggishóp Vegagerðarinnar. Hljóðvarnir verða ýmist í formi jarðvegsmana eða timburveggja eftir því sem landrými leyfir. Gert er ráð fyrir undirgöngum undir Arnarnesveg, en þau verða ekki byggð í fyrsta áfanga verksins. Til þess að koma stígnum fyrir í sem heppilegastri hæðarlegu þarf að endurmóta og endurrækta mestallt svæðið milli lóða og Hafnarfjarðarvegar. Jarðvegsmanir færast nær Hafnarfjarðarvegi og aðliggjandi römpum /hljóðgjafanum og munu því virka betur en þær gera nú.  Á köflum þarf að byggja hljóðskerma ofan á manir til að ná tilætluðum árangri í bættri hljóðvist. Unnið er að gerð útboðsgagna og er stefnt að því að hægt verði að taka stíginn í notkun um miðjan september næstkomandi en að smíði veggja geti teygst fram eftir hausti. 

Hér á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um verkið ásamt forhönnunargögnum, teikningar og greinargerð.