17. nóv. 2016

Dagur íslenskrar tungu í Garðabæ

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra heimsótti Garðabæ á degi íslenskrar tungu, miðvikudaginn 16. nóvember.
  • Séð yfir Garðabæ

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra heimsótti Garðabæ á degi íslenskrar tungu, miðvikudaginn 16. nóvember. Ráðherra hóf daginn í Flataskóla þar sem hann var við dagskrá á sal.

Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviða Menntamálastofnunar bættist eftir það í hópinn í Flataskóla og afhenti ráðherra ný lestrarviðmið sem stofnunin hefur gefið út. Lestrarviðmið eru verkfæri fyrir nemendur, kennara og foreldra til að fylgjast með framförum og styðja við læsi.

Frá Flataskóla lá leið ráðherra í Sjálandsskóla og Alþjóðaskólann. Gestirnir gengu um skólann, skoðuðu ýmis verkefni sem nemendur voru að vinna með í tengslum við dag íslenskrar tungu og þáðu að því loknu hádegisverð í skólanum.  

Eftir hádegi lá leið ráðherra og fylgdarliðs hans í Hönnunarsafnið við Garðatorg og dagskráin endaði síðan á leikskólanum Bæjarbóli sem fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Börnin á Móholti og Nónholti komu á sal og sungu nokkur íslensk lög fyrir gestina. Ráðherrann skoðaði einnig leikskólann og ræddi við starfsfólk.