5. maí 2015

Góður hugarflæðisfundur um menningarmál

Miðvikudaginn 29. apríl sl. stóð menningar- og safnanefnd Garðabæjar fyrir opnum fundi í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, um menningarmál í Garðabæ. Fundurinn var vel sóttur. Hátt í 60 manns mættu og tóku þátt í umræðum um hvernig megi efla og bæta menningarlífið í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ
Miðvikudaginn 29. apríl sl. stóð menningar- og safnanefnd Garðabæjar fyrir opnum fundi í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, um menningarmál í Garðabæ.  Fundurinn var vel sóttur. Hátt í 60 manns mættu og tóku þátt í umræðum um hvernig megi efla og bæta menningarlífið í Garðabæ.  
Gunnar Valur Gíslason, formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar, setti fundinn og fór yfir markmið nefndarinnar með honum, sem er að ábendingar og hugmyndir íbúa myndu nýtast menningar- og safnanefnd við mótun aðgerðaáætlunar Garðabæjar í menningarmálum til næstu ára. 
Því næst var boðið upp á örfyrirlestur Signýjar Pálsdóttur, skrifstofustjóra menningarmála hjá Reykjavíkurborg, sem fræddi gesti um menningarstefnu borgarinnar og aðgerðaráætlun henni tengdri.  Kom margt fróðlegt fram í máli Signýjar.

Að því loknu tóku fundargestir þátt í umræðum á borðum þar sem fundargestir voru beðnir um að koma með hugmyndir og ábendingar um hvernig mætti efla og bæta menningarlíf í Garðabæ.  Einnig voru gestir beðnir um að hugleiða hvað væri mikilvægast að komi til framkvæmda á næstu árum og hver framtíðarsýn þeirra væri í menningarmálum Garðbæinga.  
Í lok fundar var stutt samantekt þar sem fulltrúi hvers borðs fór yfir helsta umræðuefni á sínu borði.  Allir fundargestir skiluðu ábendingum sínum og hugmyndum á blaði og nú er unnið að því að taka saman alla punkta sem komu fram á fundinum og flokka þá.  Niðurstöður umræðna verða birtar á vef Garðabæjar.