Jazzhátíð Garðabæjar var vel sótt
Jazzhátíð Garðabæjar var haldin í tíunda sinn dagana 23.-26. apríl sl. Fjölbreytt dagskrá var í boði á jazzhátíðinni og fyrstu tónleikarnir voru að venju að kvöldi til á Sumardaginn fyrsta, fimmtudagskvöldið 23. apríl sl. Þá steig Tríó Sigurðar Flosasonar á svið í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, og flutti dagskrá tileinkaða Billie Holiday. Á föstudagskvöldinu var Friðrik Karlsson í aðalhlutverki ásamt world jazz tríói sínu á sviðinu í Kirkjuhvoli.
Þrennir tónleikar voru í boði á laugardeginum og dagskráin hófst með sérstökum tónleikum í samstarfi við Félag eldri borgara í Garðabæ í Jónshúsi. Í Jónshúsi var það hin danska Katrine Madsen ásamt tríói sem flutti ljúfa jazztóna og síðar um kvöldið kom bandið aftur fram á tónleikum í Kirkjuhvoli. Á Álftanesi var boðið upp á síðdegistónleika í Haukshúsi á laugardeginum og þar voru ungir Garðbæingar í aðalhlutverki þau Aron Örn Magnússon og Ingibjörg Fríða ásamt meðleikurum. Dagskránni lauk svo með stórtónleikum Stórsveitar Tónlistarskóla Garðabæjar sem hélt tónleika síðdegis á sunnudeginum í Kirkjuhvoli. Strengjasveit skólans lék einnig með þeim í nokkrum lögum og sérstakir gestir voru söngvararnir Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Jón Svavar Jósefsson.
Góð aðsókn var á alla tónleikana og nánast fullt út úr dyrum. Hátíðin var haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður. Styrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ.
Sjá fleiri myndir á fésbókarsíðu Garðabæjar.