Vorhreinsun í bæjarlandinu
Hreinsunarátak Garðabæjar, hreinsað til í nærumhverfinu, stendur nú yfir en það hófst 10. apríl sl. Átakið hefur gengið gríðarlega vel og aldrei hafa fleiri hópar sótt um að taka til hendinni á svæðum í bæjarlandinu en núna í vor þó veðrið hafi ekki alltaf verið eins og best er á kosið. Það er ánægjulegt hversu margir hafa tekið þátt og margir nýjir hópar, íbúar við tilteknar götur og félagasamtök, hafa bæst við í framtakið í ár. Skemmtilegar ábendingar hafa borist frá hópunum um að t.d hestamenn ættu að hreinsa rúllubaggaplast af girðingum o.fl.
Hópar fá ákveðin svæði til hreinsunar
Hóparnir hafa margir sótt um styrk til umhverfisstjóra gegn því að tína rusl á ákveðnum svæðum í bæjarlandinu. Með því að dreifa hópunum vel um bæjarlandið ætti bærinn að vera nokkuð hreinn þar til að sumarstarfsmenn taka til starfa í byrjun júní og vinna þá áfram að hreinsun bæjarins. Bæjarstjórn Garðabæjar lætur sitt ekki eftir liggja og ætlar að taka þátt í hreinsunarátakinu í hádeginu þriðjudaginn 28. apríl nk.
Vorhreinsun lóða 27. apríl - 13. maí.
Hin árlega vorheinsun lóða hefst svo mánudaginn 27. apríl nk. þar sem Garðbæingar eru hvattir til að hreinsa lóðir sínar í sameiginlegu átaki sem stendur til 13. maí nk. Garðabær hirðir
garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk á tilteknum dögum í hverfum bæjarins sem tilgreindir eru hér fyrir neðan. Þessi þjónusta er veitt bæjarbúum að kostnaðarlausu þessa daga en mikilvægt er að vera innan þessara tímamarka sem eru gefin upp fyrir hvert hverfi.
Hreinsun á garðúrgangi - tímasetningar fyrir hvert hverfi:
27.-29. apríl: Flatir, Ásgarður, Fitjar, Hólar, Ásar, Grundir, Sjáland, Arnarnes, Akrar, Vífilsstaðir, Urriðaholt
4.- 6. maí: Tún, Mýrar, Garðatorg, Móar, Byggðir, Lundir, Búðir, Bæjagil, Hæðahverfi, Hnoðraholt
11.-13. maí: Álftanes, Garðahverfi, Prýði, Hleinar og v. Álftanesveg
Nærumhverfið skiptir okkur máli - íbúafundur 12. maí
Nærumhverfið skiptir okkur máli er heiti íbúafundar sem umhverfisnefnd Garðabæjar stendur fyrir þriðjudaginn 12. maí í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli kl.17:00 -19:00. Dagskrá íbúafundarins verður kynnt nánar hér á vef Garðabæjar á næstu dögum.