17. apr. 2015

Sumardagurinn fyrsti í Garðabæ

Mikið verður um dýrðir á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl nk., enda sterk hefð um hátíðahöldin í Garðabæ. Þau hafa ávallt verið í umsjá skátafélagsins Vífils. Dagurinn hefst með fánaathöfn við Vídalínskirkju laust fyrir klukkan 13.00 og skátaguðsþjónustu í kirkjunni strax á eftir. Skrúðganga hefst eins og venja er fljótlega eftir skátamessuna eða um klukkan 14.00. Fjölbreytt útidagskrá við Hofsstaðaskóla.
  • Séð yfir Garðabæ

Mikið verður um dýrðir á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl nk.,  enda sterk hefð um hátíðahöldin í Garðabæ. Þau hafa ávallt verið í umsjá skátafélagsins Vífils. Sumardagurinn fyrsti er um leið afmælisdagur félagsins, en félagið var stofnað á þessum degi árið 1967 og verður því 48 ára á þessu ári.

Skátamessa í Vídalínskirkju kl. 13

Dagurinn hefst með fánaathöfn við Vídalínskirkju laust fyrir klukkan 13.00 og skátaguðsþjónustu í kirkjunni strax á eftir. Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir þjónar. Veittar verða viðurkenningar til skátaforingja og skátafélagið tekur á móti sérstakri gæðaviðurkenningu frá Bandalagi íslenskra skáta. Skátahöfðingi, Bragi Björnsson afhendir viðurkenninguna og ávarpar kirkjugesti. Við hvetjum alla Garðbæinga til að taka þátt í dagskránni frá upphafi.

Skrúðganga frá Vídalínskirkju

Skrúðganga hefst eins og venja er fljótlega eftir skátamessuna eða um klukkan 14.00. Gengið verður frá Vídalínskirkju, niður Hofsstaðabraut, eftir Bæjarbraut að Hofsstaðaskóla og inn á hátíðarsvæðið þar. Skátaforingjar úr Vífli munu sjá um fánaborg í skrúðgöngunni og Blásarasveitin um göngutakt og hressan undirleik.

Dagskrá við Hofsstaðaskóla

Við Hofsstaðaskóla mun Blásarasveitin leika nokkur lög og að því loknu hefst skemmtidagskrá og ættu allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þar, t.d. leiktæki, þrautabraut og veltibílin vinsæla. Félagar úr Sirkus Íslands sýna ýmsar listir og skemmta gestum á svæðinu.

Skátakaffi og kökuhlaðborð

Í samkomusal Hofsstaðaskóla verður hið víðfræga skátatertuhlaðborð. Þar koma fjölskyldur úr bænum saman, fagna sumarkomunni og styrkja um leið skátastarfið. Kaffihlaðborðið kostar 1500 kr. fyrir fullorðna og 1000 kr. fyrir börn 6 – 12 ára.

Á vef Vífils, www.vifill.is  má sjá myndir frá hátíðinni í fyrra.

Auglýsing - dagskrá (pdf-skjal)