17. nóv. 2016

Afhjúpun söguskiltis á Bessastaðanesi

?Forseti Íslands og bæjarstjóri Garðabæjar, afhjúpuðu söguskilti á Skansinum á Bessastaðanesi laugardaginn 12. nóvember sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, afhjúpuðu söguskilti á Skansinum á Bessastaðanesi laugardaginn 12. nóvember sl.  Af þessu tilefni var boðið til sögugöngu þar sem gengið var frá Eyri nyrst á Álftanesi að Skansinum.  Við Skansinn er kenndur hinn eini sanni Óli Skans en hvert mannsbarn þekkir vísuna um hann.

Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, flutti ávarp sem tengdist sögu Bessastaða og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur fjallaði um sögu Skansins.  Forsetinn ávarpaði því næst gesti og hafði orð á því að gaman væri að skoða söguna aftur í tímann og hvatti áfram til góðra verka.  Gestum var svo boðið að skoða framkvæmd við endurheimt votlends skammt frá Skansinum í fylgd Erlu Biljar Bjarnardóttur umhverfisstjóra Garðabæjar.

Skansinn á Bessastaðanesi var reistur árið 1668 í kjölfar Tyrkjaránsins sem markaði djúp spor í sögu þjóðarinnar. Virkið á Bessastöðum er áþreifanlegar minjar um þennan sögulega atburð. Þá er bærinn sjálfur merkilegur fyrir þær sakir að þar bjó Óli Skans í kotbýli á 19. öld. Skansinn var friðlýstur af Þjóðminjaverði árið 1938.

Söguleg samantekt um Skansinn (pdf-skjal)