Viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs
Erling Ásgeirsson og Jóhanna Aradóttir fengu viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs, þegar tilkynnt var um kjör íþróttamanna Garðabæjar 2014 sunnudaginn 11. janúar sl. Sjá jafnframt frétt um íþróttamenn ársins.
Í umsögn íþrótta- og tómstundaráðs segir:
Erling Ásgeirsson
Afskipti Erlings af íþrótta- og æskulýðsmálum í Garðabæ hófust eftir að hann og fjölskyldan fluttust í bæinn á áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim árum var blómlegt siglingastarf við Arnarnesvog á vegum Siglingaklúbbsins Vogs. Erling tók þátt í starfi þar með börnum og unglingum jafnframt því að sigla og keppa sjálfur á eigin bátum. Var hann formaður Vogs í þrjú ár og sat jafnframt í stjórna Siglingasambandsins um tíma.
Um 1980 hóf Erling að starfa fyrir Stjörnuna og þá sem foreldri í barna og unglingastarfi. Það leiddi síðar til formennsku í Knattspyrnudeild félagsins í 4 ár. Jafnframt gegndi hann ýmiskonar trúnaðarstörfum fyrir félagið svo sem nefndarstörfum innan félagsins sem utan t.d. sat Erling í Landsliðsnefnd KSÍ um tíma. Síðar tók Erling að sér að vera formaður meistaraflokksráðs kvenna í 2-3 ár.
Á árunum 1982- 1990 var Erling formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og stóð þá fyrir stefnumótun (ásamt Gunnari Einarssyni þ.v. íþróttafulltrúa) í íþrótta- og æskulýðsmálum sem að mörgu leyti er starfað eftir en þann dag í dag. T.d. var hátíðin Íþróttamaður ársins tekin upp á þeim tíma og er í höfuðatriðum með sama sniði enn þann dag í dag þó umfangið sé að sjálfsögðu allt annað og meira nú.
Erling hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín að íþrótta- og æskulýðsmálum á löngum ferli. Hann hefur verið sæmdur gullmerki ÍSÍ, Gullmerki GKG, Gullmerki Stjörnunnar, Starfsmerki UMSK og á árinu 2013 gullmerki Stjörnunnar með lárviðarsveig.
Erling lauk á síðasta vori 28 ára ferli í bæjarstjórn Garðabæjar. Á þeim langa ferli voru íþrótta- og æskulýðsmál að sjálfsögðu oft til umfjöllunar og margar ákvarðanir teknar í þeim mikilvæga málaflokki.
Jóhanna Aradóttir
Jóhanna hefur verið starfandi skáti í Skátafélaginu Svönum í rúm 25 ár, þar af sem foringi og síðar í stjórn félagsins í um 20 ár. Hún hefur verið fararstjóri eða í fararstjórn fyrir Skátafélagið í fjölmörgum ferðum bæði innanlands og utan. Hún hefur farið á þrjú alheimsmót skáta, þar af einu sinni sem sveitarforingi og einu sinni í fararstjórn. Þá hefur hún stýrt Útilífsskóla Svana í nokkur sumur.
Jóhanna sat í fræðsluráði Bandalags íslenskra skáta í tvö ár. Hún hefur lokið Gilwell foringjaþjálfun og setið í Gilwell þjálfunarteyminu ásamt því að leiðbeina á námskeiðum þess.
Árið 2009 stýrði Jóhanna dagskrárþorpi á Roverway á Íslandi, en það er Evrópumót Róverskáta (18 – 26 ára).
Jóhanna situr nú í undirbúningsteymi staðardagskrár fyrir World moot, sem er alheimsmót Róverskáta sem haldið verður á Íslandi 2017.
Jóhanna er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur. Hún sat í íþrótta- og tómstundanefnd Álftaness í 6 ár og hefur séð um Tómstundaheimili Álftanesskóla í rúm 5 ár.