11. des. 2014

Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu

Laugardaginn 6. desember voru ljósin tendruð á jólatrénu fyrir utan ráðhús Garðabæjar á Garðatorgi. Jólatréð kemur frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og í ár er þetta í 45. sinn sem Garðbæingar njóta þessarar vinasendingar þaðan.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 6. desember voru ljósin tendruð á jólatrénu fyrir utan ráðhús Garðabæjar á Garðatorgi.  Jólatréð kemur frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og í ár er þetta í 45. sinn sem Garðbæingar njóta þessarar vinasendingar þaðan. Það viðraði vel á laugardaginn en þó var nokkuð kalt í veðri. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar lét það þó ekki á sig fá og heilsaði gestum með ljúfum tónum og spiluðu nokkur vel valin jólalög. Því næst bauð formaður Norræna félagsins í Garðabæ, Hilmar Ingólfsson, gesti velkomna og nýr sendiherra Noregs á Íslandi, Cecilie Landmark afhenti tréð formlega og Sturla Þorsteinsson, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, veitti því viðtöku.  Tveir nemendur úr Sjálandsskóla aðstoðu við að tendra ljósin á jólatrénu og svo stigu á svið nemendur úr Sjálandsskóla og sungu jólalög fyrir viðstadda. Ekki leið svo á löngu þar til tveir jólasveinar komu í heimsókn á Garðatorgið og skemmtu áhorfendum á öllum aldri. Að lokinni athöfn utandyra gátu gestir farið inn í göngugötuna á Garðatorgi og hlýjað sér og verslunin Víðir bauð upp á mandarínur, piparkökur og annað góðgæti með aðstoð Norræna félagsins í Garðabæ. 

Fyrr um daginn var einnig vel mætt á árlegt jólaleikrit í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og í ár var það leikhópurinn Miðnætti sem sýndi leikrtið Þegar Trölli stal jólunum.  Á fésbókarsíðu bókasafnsins er hægt að sjá myndir frá sýningu jólaleikritsins. Hönnunarsafn Íslands var með ókeypis aðgang í tilefni dagsins og í glugga á anddyri safnsins er nú hægt að skoða jóladagatal safnsins þar sem nýr hlutur úr safneign birtist á hverjum degi. 

Fleiri myndir frá jóladagskránni á Garðatorgi eru á fésbókarsíðu Garðabæjar.