11. des. 2014

Góð stemmning á jóla-og góðgerðardeginum

Laugardaginn 29. nóvember sl. var hinn árlegi jóla- og góðgerðardagur haldinn í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi. Að venju var fjölbreytt dagskrá í boði þennan dag í íþróttamiðstöðinni og margir sem lögðu leið sína þangað. Meðal þeirra sem stigu á svið innandyra voru Ingó, Stefán Hilmarsson, Kvennakór Garðabæjar, Álftaneskórinn og auk þess voru nemendur úr Álftanesskóla með fjölmörg skemmtiatriði þar sem þau sungu, dönsuðu og voru með tískusýningu.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 29. nóvember sl. var hinn árlegi jóla- og góðgerðardagur haldinn í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi. Það er foreldrafélag Álftanesskóla ásamt ýmsum félagasamtökum á Álftanesi sem hafa staðið fyrir þessum degi í nokkur ár.  Að venju var fjölbreytt dagskrá í boði þennan dag í íþróttamiðstöðinni og margir sem lögðu leið sína þangað.  Meðal þeirra sem stigu á svið innandyra voru Ingó, Stefán Hilmarsson, Kvennakór Garðabæjar, Álftaneskórinn og auk þess voru nemendur úr Álftanesskóla með fjölmörg skemmtiatriði þar sem þau sungu, dönsuðu og voru með tískusýningu.  Fjölmörg félög og einstaklingar voru með söluborð þar sem hægt var að kaupa ýmsan varning, eins og handverk, hönnun, kaffi o.fl. Allur ágóði af leigu borðanna fór til góðs málefnis.  Foreldrafélag Álftaness afhenti einnig Álftanesskóla veglegar bókagjafir í tilefni dagsins.

Ljósin tendruð á jólatrénu á Álftanesi

Að lokinni dagskrá innandyra er hefð að fara út og tendra ljósin á jólatrénu sem er staðsett fyrir utan íþróttamiðstöðina. Formaður leikskólanefndar, Viktoría Jensdóttir, kynnti dagskrána utandyra og sr. Hans Guðberg Alfreðsson flutti hugvekju. Því næst stigu á svið Hrafnkell Pálmarsson og Pálmar Ólason og fluttu vel valin jólalög á meðan dansað var í kringum jólatréð.  Að lokum komu nokkrir jólasveinar fyrr til byggða og heilsuðu upp á börn og fullorðna.  

Foreldrafélag Álftaness heldur úti fésbókarsíðu þar sem hægt er að skoða fleiri skemmtilegar myndir frá jóla- og góðgerðardeginum.