5. des. 2014

Ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi

Laugardaginn 6. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 45. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan. Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi við ráðhús Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 6. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 45. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan.  Athöfnin á laugardag hefst  kl. 16 á Garðatorgi við ráðhús Garðabæjar. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur fyrir gesti og Hilmar Ingólfsson formaður Norræna félagsins í Garðabæ, býður gesti velkomna. Sendiherra Noregs á Íslandi Cecilie Landmark afhendir tréð fyrir hönd Asker og Sturla Þorsteinsson forseti bæjarstjórnar, veitir trénu viðtöku. Skólabörn úr Sjálandsskóla syngja nokkur lög fyrir viðstadda og að lokum koma jólasveinar til byggða og flytja jólalög. 

Barnaleikrit í Bókasafninu og ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands

Ýmislegt verður einnig um að vera fyrr um daginn í miðbæ Garðabæjar.  Að venju er leiksýning í Bókasafni Garðabæjar,  sem að þessu sinni hefst kl. 15 þegar leikhópurinn Miðnætti sýnir ,,Þegar Trölli stal jólunum“.  Leiksýningin verður haldin á efri hæð safnsins að Garðatorgi 7.   Þennan dag verður ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands frá kl. 12-17.  Í safninu er hægt að skoða sýningarnar ,,Ertu tilbúin frú forseti?“ og ,,Prýði“.  Jóladagatal Hönnunarsafns Íslands verður opnað á hverjum degi í desember fram að jólum.  Í anddyri safnsins verður glugga breytt í jóladagatal og hlutir úr safneign safnsins sýndir þar.

Á Garðatorgi er hægt að byrja jólaverslunina í verslunum á torginu. Í tilefni dagsins ætla listamenn sem eru með vinnustofur á Garðatorgi (gengið af göngugötu, fram hjá Víði og upp á 2. hæð) að hafa opið hús frá kl. 15-18.  Listamennirnir eru Gunnella, Laufey Jensdóttir, Auður Björnsdóttir, Guðrún Hreinsdóttir, Birgir Rafn Friðriksson og Sunna Björg Sigfríðardóttir. Jafnframt verða einhverjir listamenn með söluborð á torginu.

Allir eru velkomnir á Garðatorgið til að taka þátt í jóladagskránni.