26. nóv. 2014

Gengið með gullsmiðum

Í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi stendur nú yfir sýningin Prýði sem er unnin í samstarfi við Félag íslenskra gullsmiða á Íslandi í tilefni af 90 ára afmæli félagsins. Í tengslum við sýninguna hefur verið boðið upp á skemmtilegt spjall við gullsmiði og næstkomandi sunnudag 30. nóvember kl. 14 mun Halla Bogadóttir fyrrverandi formaður Félags íslenskra gullsmiða leiða spjall með Dóru Jónsdóttur og Örnu Arnarsdóttur gullsmiðum í Hönnunarsafninu.
  • Séð yfir Garðabæ

Í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi stendur nú yfir sýningin Prýði sem er unnin í samstarfi við Félag íslenskra gullsmiða á Íslandi í tilefni af 90 ára afmæli félagsins. Sýningin opnaði í október og stendur fram í lok í lok janúar á næsta ári.  Í tengslum við sýninguna hefur verið boðið upp á skemmtilegt spjall við gullsmiði og næstkomandi sunnudag 30. nóvember kl. 14 mun  Halla Bogadóttir fyrrverandi formaður Félags íslenskra gullsmiða leiða spjall með Dóru Jónsdóttur og Örnu Arnarsdóttur gullsmiðum í Hönnunarsafninu. Allar hafa þær gegnt formannsstöðu í félaginu.   Á sunnudag verður lögð áhersla á að segja frá félaginu og gildi þess að halda afmælissýningar líkt og Prýði.

Á sýningunni Prýði eru gripir eftir 40 gullsmiði sem voru gefnar frjálsar hendur að smíða fyrir sýninguna eða velja úr eigin safni.  Gullsmiðirnir eru á ólíkum aldri, þeir sem unnið hafa við fagið í áratugi og byggt upp atvinnurekstur og tekið til sín lærlinga, svo og yngra fólk sem sýnir við hlið meistara sinna og hefur á síðustu árum skapað sér nafn og sérstöðu með þátttöku í fjölda sýninga og rekstri vinnustofa eða verslana.

Hönnunarsafnið er til húsa að Garðatorgi 1 og þar er opið alla daga frá kl. 12-17 (nema mánudaga).  Hönnunarsafnið er með vefsíðuna, www.honnunarsafn.is og heldur einnig úti fésbókarsíðu.