27. apr. 2018

Vel heppnuð jazzhátíð

Jazzhátíð Garðabæjar var haldin 19.-21. apríl sl. Jazzhátíð Garðabæjar var haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar en listrænn stjórnandi hefur frá upphafi verið Sigurður Flosason tónlistarmaður.

  • Ragnheiður í Jónshúsi
  • Nemendatónleikar
  • Ari Bragason á Jazzhátíð


Jazzhátíð Garðabæjar hófst að kvöldi til sumardaginn fyrsta, 19. apríl sl., með tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, setti hátíðina og bauð gesti velkomna.  Því næst steig á svið ASA-tríó skipað þeim Agnari Má Magnússyni, Andrési Þór Gunlaugssyni og Scott McLemore.  Sérstakur gestur með þeim var Jóel Pálsson saxófónleikari.  Þeir félagar voru í miklu stuði og fluttu bæði frumsamin lög sem og lög eftir aðra við góðar undirtektir tónleikagesta.

Flott latínjazzveisla á föstudeginum

Á föstudagskvöldinu 20. apríl kl. 20:30 var boðið upp á sannkallaða Latínjazzveislu í Kirkjuhvoli.   Þar mætti hljómsveitin Salsakommúnan til leiks og flutti hressa latín jazz tónlist.  Tónleikarnir voru mjög vel sóttir sem og allir tónleikar hátíðarinnar. 

Samfelld tónlistarveisla á laugardeginum


Á laugardeginum 21. apríl gátu tónlistarunnendur farið á þrenna tónleika á hátíðinni.  En fyrstu tónleikarnir fóru fram í félagsmiðstöðinni Jónshúsi þar sem kvartett Ragnheiðar Gröndal steig á svið.  Tónleikarnir í Jónshúsi voru haldnir í samstarfi við Félag eldri borgara í Garðabæ og þar var setið til borðs og allir stólar hússins nýttir.   Síðdegis á laugardeginum voru haldnir sérstakir nemendatónleikar þegar efnilegar hljómsveitir úr Tónlistarskóla Garðabæjar komu fram í Kirkjuhvoli. Þar voru framtíðartónlistarmenn á ferð.  Hátíðinni lauk með tónleikum trompetleikarans Ara Braga Kárasonar ásamt þeim Agnari Má Magnússyni, Valdimar Kolbeini Sigurjónssyni og Matthíasi Hemstock.
Jazzhátíð Garðabæjar var haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar en listrænn stjórnandi hefur frá upphafi verið Sigurður Flosason tónlistarmaður.