18. apr. 2018

Listadagar barna- og ungmenna 19.-29. apríl

Listadagar barna og ungmenna verða haldnir í áttunda sinn í Garðabæ dagana 19.-29. apríl nk. Listadagarnir eru haldnir annað hvert ár í lok apríl. Að venju er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í skólum bæjarins á öllum skólastigum þar sem uppskera vetrarins er sýnd á margvíslegan hátt.

  • Listadagar 2018
    Listadagar 2018

Listadagar barna og ungmenna verða haldnir í áttunda sinn í Garðabæ dagana 19.-29. apríl nk.
Listadagarnir eru haldnir annað hvert ár í lok apríl.  Að venju er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í skólum bæjarins á öllum skólastigum þar sem uppskera vetrarins er sýnd á margvíslegan hátt.

Sköpunargleði


Þema listadaganna að þessu sinni er ,,Sköpunargleði“. Gestum og gangandi er boðið í heimsókn í skólana þar sem fjölmörg listaverk eru til sýnis á veggjum og göngum og einnig utandyra. Einnig verður hægt að skoða verk eftir nemendur víðs vegar um bæinn, í íþróttahúsum, Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og í Hönnunarsafni Íslands.  Leik- og grunnskólar verða með opin hús á sérstökum tímum á meðan á listadögunum stendur en auk þess verða einhverjir skólar með opið hús og dagskrá í byrjun maí. 

Fjölbreyttar listasmiðjur

Mikil smiðjuvinnu af alls konar toga hefur farið fram í bæði leik- og grunnskólum þar sem listadagarnir hafa verið undirbúnir.  Sums staðar er smiðjuvinnan haldin á meðan á listadögunum stendur og listaverk búið til í sameiningu innan skólanna.  Bókasafn Garðabæjar og Hönnunarsafn Íslands stóðu að sameiginlegri listasmiðju undir heitinu Uppfinningamaðurinn þar sem valdir árgangar úr leik- og grunnskólum gátu tekið þátt og búið til sögur og bækur.  Afraksturinn verður til sýnis í söfnunum á meðan á listadögunum stendur.  

Dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands laugardaginn 21. apríl

Laugardaginn 21. apríl verður boðið upp á áhugaverða dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands.  Í bókasafninu geta gestir og gangandi tekið þátt í að búa til listaverk á torginu fyrir framan safnið frá kl. 13-15.  Þar æltar Ilva Krama listakona að leiðbeina börnum við að kríta listaverk í mandala formi sem er hringlaga mynsturgerð.  Einnig verður boðið upp á andlitsmálun í safninu frá 13-14 þennan dag. 

Í Hönnunarsafni Íslands verður boðið upp á smáhúsasmiðju laugardaginn 21. apríl frá kl. 15-17. Þar er öllum velkomið að taka þátt en börn undir 10 ára þurfa að vera í fylgd með fullorðnum.  Vinnustofan er í boði safnsins en nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram hjá safninu í s. 512 1525 þar sem fjöldi þátttakenda er takmarkaður. 

Tónleikar og lokasýningar á listnámsbraut 

Í Tónlistarskóla Garðabæjar verða haldnir fjölmargir tónleikar nemenda í framhaldsáfanga á meðan á listadögunum stendur.  Um leið og þeim lýkur taka svo vortónleikar skólans við í byrjun maí.  Nemendahljómsveitir úr Tónlistarskóla Garðabæjar koma einnig fram á sérstökum ungmennatónleikum á Jazzhátíð Garðabæjar laugardaginn 21. apríl kl. 16 í Kirkjuhvoli. 
Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ fer fram listnám, m.a. á myndlistarsviði, fata- og textílhönnunarsvið og leiklistarsviði.  Lokasýningar nemenda á leiklistarsviði verða haldnar í skólanum 20.-24 apríl nk.  Sameiginleg sýning myndlistar- og fataönnunarsviðs verður haldin í Gróskusalnum á Garðatorgi og opnar í lok listadaganna.    


Dagskrá listadaganna er aðgengileg hér á vef Garðabæjar.