13. apr. 2018

Ásgarðslaug opnar á ný sumardaginn fyrsta

Ásgarðslaug opnar á ný eftir endurbætur á sumardaginn fyrsta, 19. apríl nk. Endurbætur á sundlauginni í Ásgarði og rýmum innandyra er ein stærsta framkvæmdin sem hefur verið í gangi hjá Garðabæ á þessu og síðasta ári. Íbúum er þökkuð sú biðlund sem þeir hafa sýnt á meðan laugin hefur verið lokuð.

  • Ásgarðslaug
    Ásgarðslaug

Ásgarðslaug opnar á ný eftir endurbætur á sumardaginn fyrsta, 19. apríl nk.  Endurbætur á sundlauginni í Ásgarði og rýmum innandyra er ein stærsta framkvæmdin sem hefur verið í gangi hjá Garðabæ á þessu og síðasta ári.  Íbúum er þökkuð sú biðlund sem þeir hafa sýnt á meðan laugin hefur verið lokuð.  

Miklar endurbætur 


Öll yfirborðsefni á baðklefum og sundlaug hafa verið endurnýjuð.  Nýir heitir pottar hafa verið byggðir með nuddstútum undir yfirborðinu, nýr kaldavatnspottur var byggður sem og vað- og setlaug með barnarennibraut.  Gufubaðið hefur verið endurnýjað og nýjar útisturtur settar upp fyrir utan.  Útiklefar hafa verið endurnýjaðir og í inniklefum karla og kvenna eru nýjir klefar fyrir fatlað fólk.  Allar sturtur hafa verið endurnýjaðar. Ný girðing kemur utan um allt sundlaugarsvæðið og í nýju vaktherbergi verður fullkomið eftirlits- og myndavélakerfi sem eykur mjög öryggi sundlaugargesta.
Innandyra var gólf í danssal lagað og rými opnað við hlið salarins þar sem þrekaðstaða almennings flyst upp úr kjallara.  Kjallari var jafnframt stækkaður til að koma hreinsibúnaði fyrir.

Sundlaugin opnar kl. 10 á sumardaginn fyrsta

Á sumardaginn fyrsta, 19. apríl nk., kl. 10 opnar Ásgarðslaug á ný fyrir almenning við hátíðlega athöfn.  Boðið verður upp á tónlistaratriði innandyra og hressingu við sundlaugarbakkann.  Ókeypis aðgangur verður í laugina þennan dag og út helgina til og með 22. apríl.  Verið velkomin í sund!