28. mar. 2018

Nemendur úr Garðabæ stóðu sig vel í Stóru upplestrarkeppninni

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Seltjarnarneskirkju mánudaginn 19. mars sl. Á lokahátíðinni fengu 11 nemendur í sjöunda bekk úr Alþjóðaskólanum, Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Valhúsaskóla (grunnskóli Seltjarnarness) að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta úr skáldsögum og ljóðum.

  • Stóra upplestrakeppnin
    Stóra upplestrakeppnin

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Seltjarnarneskirkju mánudaginn 19. mars sl. Nemendur úr sjöunda bekk í Garðabæ og Seltjarnarnesi kepptu á lokahátíðinni. Garðabær og Seltjarnarnes hafa undanfarin ár verið í samstarfi um lokahátíðina og skiptast á að halda lokahátíðina en keppnin er haldin á þriggja ára fresti á Seltjarnarnesi.  

Á lokahátíðinni fengu 11 nemendur í sjöunda bekk úr Alþjóðaskólanum, Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Valhúsaskóla (grunnskóli Seltjarnarness) að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta úr skáldsögum og ljóðum.  Í ár voru skáld keppninnar Sigrún Eldjárn og Ólafur Jóhann Sigurðsson. Einnig fá nemendur að lesa ljóð að eigin vali. Á meðan á hátíðinni stóð var einnig boðið upp skemmtiatriði frá skólum og í ár var m.a. sungið og dansað.

Viðurkenningar


Í lok hátíðar afhenti Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna.  Varamenn sem tóku fullan þátt í undirbúningnum voru einnig kallaðir upp á svið og fengu bókaverðlaun.  Dómnefnd var að störfum sem fékk það erfiða val að velja þrjá lesara úr hópnum og veita þeim viðurkennningar og verðlaun fyrir 1.-3. sæti.  
Í fyrsta sæti í ár var Ari Jónsson úr Sjálandsskóla, í öðru sæti var Aðaldís Emma Baldursdóttir úr Flataskóla og í þriðja sæti var Hulda Sóley Kristbjarnardóttir úr Alþjóðaskólanum sem er einnig staðsettur í Garðabæ. 

Um Stóru upplestrarkeppnina

Garðabær hefur tekið þátt í keppninni nánast frá upphafi eða í 21 ár en Álftanesskóli hefur verið með frá byrjun eða í 22 ár. Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar eru haldnar um land allt í mars mánuði en undirbúningur hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og nemendur læra að leggja rækt við góðan upplestur. Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Haldin er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar eða byrjun mars þar sem tveir nem¬endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Stóru upplestrarkeppninni lauk svo formlega með lokahátíðinni sem að þessu sinni var haldin á Seltjarnarnesi.