8. mar. 2018

Vel heppnað skólaþing

Skólaþing Garðabæjar fór fram í Flataskóla miðvikudaginn 7. mars. Þingið heppnaðist afar vel og mættu um 170 manns. Markmið skólaþingsins var að gefa íbúum tækifæri til að hafa áhrif á skólamál bæjarins og benda á hvað má gera betur í starfi grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla.

  • Skólaþing
    Skólaþing

Skólaþing Garðabæjar fór fram í Flataskóla miðvikudaginn 7. mars sl. Þingið heppnaðist afar vel og mættu um 170 manns. Markmið skólaþingsins var að gefa íbúum tækifæri til að hafa áhrif á skólamál bæjarins og benda á hvað má gera betur í starfi grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla. Fjölmargir kennarar og aðrir starfsmenn skólanna mættu einnig til að taka þátt í þinginu.

Almenn ánægja

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður grunnskólanefndar og Viktoría Jensdóttir, formaður leikskólanefndar stýrðu fundinum af mikilli list en gestum var skipt niður í litla umræðuhópa þar sem spunnust fjörugar umræður. Almenn ánægja virtist vera með skólastarfið í Garðabæ en þó komu upp ýmsar ábendingar um hvað mætti betur fara. Meðal umræðuefna sem báru á góma í nokkrum hópum voru samstarf skóla og heimila, aðstöðumál, sérkennsla og margt fleira.  

 
Hvað finnst nemendunum?

Raddir nemenda eru afar mikilvægar. Þær Þórdís Unnur úr Barnaskóla Hjallastefnunnar og Helga Margrét úr Garðaskóla stigu á svið í upphafi þingsins og lýstu reynslu sinni af skólagöngu í Garðabæ. Þeim líður vel í skólanum sínum og sögðu frelsi og fjölbreytni í námsvali einkenna skólagönguna. 
Þá steig Barnakór Hæðarbóls á stokk og flutti vel valin lög fyrir fundargesti.  Bergur Ebbi mætti til leiks í lok fundar og kitlaði hláturtaugar fundargesta með skemmtilegu uppistandi. Eftir að umræður höfðu verið teknar saman sleit Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, þinginu. 

Unnið úr ábendingum

Vegna líflegra umræðna við borðin gafst ekki tími til að hlusta á niðurstöður allra hópa en unnið verður úr öllum ábendingum og hugmyndum sem komu fram á þinginu og niðurstöður birtar innan tíðar hér á vef Garðabæjar.