23. feb. 2018

Fundað með þingmönnum Suðvesturkjördæmis

Föstudaginn 16. febrúar funduðu bæjarfulltrúar Garðabæjar og þingmenn Suðvesturkjördæmis þar sem farið var yfir helstu mál sem eru á döfinni hjá Garðabæ. Fundurinn, sem var haldinn í íþróttamiðstöð GKG, var hluti af sk. kjördæmaviku alþingis sem stóð yfir 13.-16. febrúar sl.

  • Fundur með þingmönnum
    Fundur með þingmönnum

Föstudaginn 16. febrúar funduðu bæjarfulltrúar Garðabæjar og þingmenn Suðvesturkjördæmis þar sem farið var yfir helstu mál sem eru á döfinni hjá Garðabæ.  Fundurinn, sem var haldinn í íþróttamiðstöð GKG, var hluti af sk. kjördæmaviku alþingis sem stóð yfir 13.-16. febrúar sl.  
Jóna Sæmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, var fundarstjóri fundarins og bauð þingmenn velkomna til samráðsfundarins.  Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, fór yfir ýmis verkefni framundan hjá Garðabæ, góða útkomu úr þjónustukönnun Gallup, uppbyggingarsvæði skv. nýju aðalskipulagi, umferðarmál við Hafnarfjarðarveg og fleiri mál.  Að lokinni kynningu fóru fram umræður og fyrirspurnir bæjarfulltrúa og þingmanna. 

Umferðarmál, skólamál, samráðsvettvangur o.fl.

Bæjarfulltrúar Garðabæjar lögðu mikla áherslu á stokkalausn við Hafnarfjarðarveg eins og kemur fram í markmiðum nýs aðalskipulags bæjarins.  Mikil umræða fór fram um umferðarmál í Garðabæ sem og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.  Einnig var rætt um skólamál og sérstöðu Garðabæjar, Borgarlínu, húsnæðismál, geðheilbrigðismál ungs fólks, öldrunarþjónustu, verkefni ríkis og sveitarfélaga og samráðsvettvang þeirra auk annarra mála.