21. feb. 2018

Samkomulag um uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi

Garðabær, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínan ohf hafa undirritað samkomulag um verklag við kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í Garðabæ. Öryggismyndavélakerfið er eingöngu ætlað að þjóna þörfum lögreglu og annarra neyðaraðila.

  • Undirritun um öryggismyndavélar
    Undirritun um öryggismyndavélar

Garðabær, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínan ohf hafa undirritað samkomulag um verklag við kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í Garðabæ. Öryggismyndavélakerfið er eingöngu ætlað að þjóna þörfum lögreglu og annarra neyðaraðila. Notkun kerfisins og aðgangur að gögnum úr kerfinu verður samkvæmt reglum lögreglu og Persónuverndar.  Nýlega var sett upp öryggismyndavél á Álftanesi sem fellur undir þennan samning og hefur sú vél þegar gefið góða raun.  Stefnt er að því að koma upp allt að 10 öryggismyndavélum í Garðabæ á gildistíma samningsins til loka ársins 2020. 

Lögreglan annast vöktun á myndefninu

Samkvæmt samkomulaginu sér Garðabær um að kaupa vélarnar, setja upp og merkja með viðvörunum um rafræna vöktun í samræmi við lög um persónuvernd.  Lögreglan annast vöktun á myndefninu og tekur ákvörðun um aðgang annarra neyðaraðila að myndefninu.  Staðsetning á myndavélunum verður ákveðin af lögreglu í samráði við Garðabæ og Neyðarlínuna.  Neyðarlínan aðstoðar m.a. við uppsetningu og viðhald á öryggismyndavélunum og ber ábyrgð á flutningi merkis frá myndavélinni í endabúnað lögreglunnar. 

Nágrannavarsla mikilvæg

Garðabær hefur á undanförnum árum staðið að innleiðingu nágrannavörslu í hverfum bæjarins í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.  Áfram verður unnið að innleiðingu nágrannavörslu í nýjum hverfum Garðabæjar.  Hér á vef Garðabæjar eru ýmis góð ráð nágrannavörslu og íbúar geta einnig sett sig í samband við þjónustuver Garðabæjar og fengið upplýsingar um hvernig hægt er að standa að nágrannavörslu í einstaka götum. 

Meðfylgjandi myndir með frétt eru frá undirritun samkomulagsins, frá vinstri:
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar ohf., Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.