9. feb. 2018

Fjölbreytt dagskrá í söfnum Garðabæjar og stuð í Álftaneslaug

Garðabær tók þátt í Vetrarhátíð sem var haldin dagana 1.-4. febrúar sl. Í tilefni hátíðarinnar voru ýmsar byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp í grænum lit norðurljósanna og í Garðabæ voru var Bessastaðakirkja lýst upp í grænum tónum og einnig efsti hlutinn á ráðhústurninum á Garðatorgi og grænir ljósastaurar lýstu leiðina inn í Hönnunarsafnið og Bókasafnið á Garðatorgi.

  • Hlustunarpartý í Hönnunarsafninu
    Hlustunarpartý í Hönnunarsafninu

Garðabær tók þátt í Vetrarhátíð sem var haldin dagana 1.-4. febrúar sl.  Í tilefni hátíðarinnar voru ýmsar byggingar á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp í grænum lit norðurljósanna og í Garðabæ voru var Bessastaðakirkja lýst upp í grænum tónum og einnig efsti hlutinn á ráðhústurninum á Garðatorgi og grænir ljósastaurar lýstu leiðina inn í Hönnunarsafnið og Bókasafnið á Garðatorgi. 

Góð aðsókn á Safnanótt

Eins og fyrri ár voru söfn bæjarins þátttakendur í Safnanótt sem fór fram föstudagskvöldið 2. febrúar frá kl. 18-23.  Fjölbreytt dagskrá var í boði í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi, Hönnunarsafni Íslands og burstabænum Króki.  Fróðlegar leiðsagnir, tónlist, húllasmiðja, kórsöngur, spákona, axlarnudd, matarumfjöllun, ratleikir, danspartý og fleira skemmtilegt var í boði í söfnum Garðabæjar um kvöldið.  

Í ár var aftur opið hús á Bessastöðum frá kl. 17-21 þar sem nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ ásamt nemendum við HÍ aðstoðuðu með leiðsögn á staðnum.  Gestir gátu m.a. skoðað Bessastaðastofu, fornleifakjallarann og kirkjuna.  Í hlaði Bessastaða var fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, til sýnis en bifreiðin er ríflega sjötug, árgerð 1942.  Fjölmargir lögðu leið sína í opna húsið að Bessastöðum og enginn annar en forsetinn sjálfur, hr. Guðni Th. Jóhannesson, tók þar á móti gestum og fræddi viðstadda um sögu Bessastaða.  

Myndasyrpa frá Safnanótt á fésbókarsíðu Garðabæjar. 

Sundlaugafjör í Álftaneslaug

Í ár var boðið upp á sundlaugafjör í Álftaneskvöld sama kvöld og Safnanótt var haldin.  Opið var í sundlauginni til kl. 22 og ókeypis aðgangur fyrir sundlaugargesti um kvöldið.  Þrátt fyrir leiðindaveður fyrr um daginn var veður nokkuð gott um kvöldið og þar sem ekki var frost úti var rennibrautin opin og vakti það mikla lukku yngri gesta laugarinnar.  Stigahúsið upp í rennibrautina var upplýst í margbreytilegum litum og einnig var öldulaugin upplýst í tilefni kvöldsins.  Boðið var upp á dótasund, sundkennslu, tónlistaratriði MIMRU, zumba og flotsund í lauginni þetta kvöld.  

Myndasyrpa úr Álftaneslaug á fésbókarsíðu Garðabæjar.