7. feb. 2018

Upptakturinn – Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

Með Upptaktinum, Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, gefst ungu fólki færi á að senda inn tónsmíð eða drög að tónsmíðum og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna.

  • Upptakturinn
    Upptakturinn

Með Upptaktinum, Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, gefst ungu fólki færi á að senda inn tónsmíð eða drög að tónsmíðum og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna.  Upptakturinn er samstarfsverkefni Barnamenningarhátíðar, Hörpu og Listaháskóla Íslands og er opinn 10 –15 ára ungmennum á höfuðborgarsvæðinu.  Áhersla er lögð á að hvetja börn og unglinga til að semja sína tónlist og styðja þau í fullvinnslu hugmyndar. Börnin sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum Skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands auk þess að vinna að tillögum að útsetningum verkanna undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar Listaháskóla Íslands.

Ungmenni úr Garðabæ geta tekið þátt í Upptaktinum – tónsmiðja og tónleikar í Hörpu

Í tilefni af Listadögum barna og ungmenna í Garðabæ sem eru haldnir eru í vor með samstarfi allra leik- og grunnskóla í Garðabæ gefst ungum Garðbæingum í 5.-10. bekk í fyrsta sinn tækifæri til að senda inn verk í Upptaktinn.   Þátttakendum er skipt í yngri hóp (5.-7. bekkur) og eldri hóp (8.-10. bekkur) og hægt er að senda inn tónsmíð óháða tónlistarstíl.  Alls verða valin um 12-13 verk úr öllum innsendum hugmyndum sem fá að taka þátt í vinnustofu/tónsmiðju í Hörpu fyrri hluta mars mánuðar.  Þar sem verk nemendanna verða fullunninn með aðstoð tónskálda og fagfólks í tónlist.  Þriðjudaginn 17. apríl verða fullunnin tónverk flutt á tónleikadagskrá í Silfurbergi í Hörpu.  Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist.  

Upplýsingar um Upptaktinn – skilafrestur hugmynda til 12. febrúar nk.

Upplýsingar um Upptaktinn má fá á vef Hörpu: harpa.is/upptakturinn og á fésbókarsíðu Upptaktsins: facebook.com/Upptakturinn.  Lengd tónlverks skal vera 3-7 mínútur að hámarki, bæði einleiks- og samleiksverk fyrir allt að 5 flytjendur.  Skila þarf inn tónsmíð inn í hefðbundinni eða grafískri nótnaskrift eða með hljóðritun.  Hugmyndir, s.s. upptökur, nótur, texti eða grafísk lýsing má senda rafrænt á netfangið upptakturinn@gmail.com.  Skilafrestur hugmynda er til og með 12. febrúar 2018.
Foreldrar- og forráðamenn eru eindregið hvattir til að upplýsa, aðstoða og hvetja börn og ungmenni til að taka þátt í þessu skapandi og skemmtilega tónsmíðaverkefni.