26. jan. 2018

Staða framkvæmda við Ásgarðslaug

Endurbætur á sundlauginni í Ásgarði og rýmum innandyra er ein stærsta framkvæmdin sem hefur verið í gangi hjá Garðabæ á liðnu ári. Miðvikudaginn 24. janúar sl. var boðið til opins kynningarfundar um stöðu framkvæmda við Ásgarðslaug. Hópur fastagesta við Ásgarðslaug óskaði eftir að fá kynningu á stöðu framkvæmdanna og þeim ásamt öllum sem áhuga höfðu var boðið að koma í heimsókn í laugina.

  • Kynningarfundur um opnun laugar
    Kynningarfundur um opnun laugar

Endurbætur á sundlauginni í Ásgarði og rýmum innandyra er ein stærsta framkvæmdin sem hefur verið í gangi hjá Garðabæ á liðnu ári.   Miðvikudaginn 24. janúar sl. var boðið til opins kynningarfundar um stöðu framkvæmda við Ásgarðslaug.  Hópur fastagesta við Ásgarðslaug óskaði eftir að fá kynningu á stöðu framkvæmdanna og þeim ásamt öllum sem áhuga höfðu var boðið að koma í heimsókn í laugina.  Hátt í 90 manns mættu til fundarins og að lokinni kynningu var gestum skipt í minni hópa og farið í skoðunarferð um hluta hússins í Ásgarði.  

Vonir standa til að laugin opni í apríl

Upphaflega framkvæmdaáætlun gerði ráð fyrir að sundlaugin myndi opna í nóvember á síðasta ári en miðað við gang framkvæmda í dag standa vonir til að Ásgarðslaug geti opnað á ný í apríl á þessu ári.  Í haust var ljóst að tafir hefðu orðið á framkvæmdinni meðal annars vegna uppsteypu á lagnakjallara og vinna við lagfæringu laugakers var meiri en gert var ráð fyrir..  
Þessa dagana er verið að klára að flísaleggja laugarkerið og vaðlaug og vinna við flísalögn í pottum er að fara af stað.  Um miðjan febrúar hefst stilling á sundlaugarbúnaði.  Sundlaugaklefar eru nánast tilbúnir.  Útiklefar og vaktherbergi eru langt komin.  

Helstu breytingar við endurbæturnar

Meðal helstu breytinga sem farið var í eru endurnýjun á öllu yfirborðsefni á baðklefum og sundlaug. Nýir heitir pottar verða byggðir með nuddstútum undir yfirborðinu, nýr kaldavatnspottur verður byggður sem og vað- og setlaug með barnarennibraut.  Gufubað verður endurnýjað og nýjar útisturtur settar upp fyrir utan.  Útiklefar verða endurnýjaðir og í inniklefum karla og kvenna verður byggður nýr klefi fyrir fatlað fólk.  Sturtur verða allar endurnýjaðar.  Ný girðing kemur utan um allt sundlaugarsvæðið og í nýju vaktherbergi verður fullkomið eftirlits- og myndavélakerfi sem eykur mjög öryggi sundlaugargesta.
Innandyra var gólf í danssal lagað og rými opnað við hlið salarins þar sem þrekaðstaða almennings flyst upp úr kjallara.  Kjallari var jafnframt stækkaður til að koma hreinsibúnaði fyrir.

Íbúum er þökkuð sú biðlund sem þeir hafa sýnt á meðan laugin hefur verið lokuð.  Opnun Ásgarðslaugar á ný eftir endurbætur verður kynnt vel á vef Garðabæjar þegar þar að kemur.