25. jan. 2018

Bjóðum í samtal – tveir fundir framundan

Miðvikudaginn 24. janúar sl.var haldinn íbúafundur í hátíðarsal Álftaness í íþróttamiðstöðinni. Fundurinn var annar í röðinni af fjórum íbúafundum í Gaðrabæ undir yfirskriftinni Bjóðum í samtal. Ágætis mæting var á fundinn á Álftanesinu þar sem fundarmenn hlustuðu á örkynningar

  • Íbúafundur á Álftanesi
    Íbúafundur á Álftanesi

Miðvikudaginn 24. janúar sl.var haldinn íbúafundur í hátíðarsal Álftaness í íþróttamiðstöðinni.  Fundurinn var annar í röðinni af fjórum íbúafundum í Gaðrabæ undir yfirskriftinni Bjóðum í samtal.  Ágætis mæting var á fundinn á Álftanesinu þar sem fundarmenn hlustuðu á örkynningar frá Gunnari Einarssyni bæjarstjóra, Sunnu Sigurðardóttur þjónustustjóra, Eysteini Haraldssyni forstöðumanni tækni- og umhverfissviðs,  Bergljótu Sigurbjörnsdóttur forstöðumanni fjölskyldusviðs og Margréti Björk Svavarsdóttur forstöðumanni fræðslu- og menningarsviðs.  En megináhersla fundarins var þó að hlusta og ræða við íbúa sem vörpuðu fram fyrirspurnir á fundinum.  Ýmis mál báru þar á góma, s.s. spurningar um neysluvatn, umferðarmannvirki, göngustíga og fráveitumál.  Allar fyrirspurnir sem voru ræddar á fundinum sem og þær sem voru sendar inn fyrirfram verða teknar saman og lagðar fyrir bæjarráð Garðabæjar til kynningar að lokinni fundarröð. 

Fundir 31. janúar og 7. febrúar

Miðvikudaginn 31. janúar verður haldinn fundur í Sjálandsskóla þar sem íbúar Akrahverfis, Arnarness, Ása, Sjálands, Garðahverfis, Garðahrauns/Prýðishverfis og Hleina eru sérstaklega velkomnir.  Síðasti fundurinn í fundaröðinni verður haldinn miðvikudaginn 7. febrúar en á þann fund eru íbúar Hæðahverfis, Flatahverfis, Byggða, Búða, Bæjargils, Fitja, Hóla, Garðatorgs, Grunda, Móa, Lunda, Mýra og Túna velkomnir.  

Um hvað vilt þú tala?

Íbúar geta sent inn fyrirspurnir fyrir hvern fund í gegnum sérstakt ábendingaform hér á vef Garðabæjar,  þar er líka hægt að senda inn tillögur að umræðuefnum fyrir fundina.  Allar ábendingar og/eða fyrirspurnir sem berast á fundunum verða skráðar niður og teknar til skoðunar og lagðar fyrir bæjarráð Garðabæjar.  Hver fundur verður sendur út beint á netinu í gegnum ,,facebook-live" á fésbókarsíðu Garðabæjar. 

Verið velkomin á íbúafundina.