8. nóv. 2016

Bókasafn á Álftanesi í 60 ár

Miðvikudaginn 9. nóvember nk. verður haldið upp á 60 ára afmæli bókasafns á Álftanesi með afmæliskaffi og upplestri í Álftanessafni sem hefst kl. 20.
  • Séð yfir Garðabæ

Miðvikudaginn 9. nóvember nk. verður haldið upp á 60 ára afmæli bókasafns á Álftanesi með afmæliskaffi og upplestri í Álftanessafni sem hefst kl. 20.  Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar flytur stutt ávarp og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur les upp úr nýrri ljóðabók sinni ,,Hæg breytileg átt: ljóð".  Álftanessafn er staðsett í Álftanesskóla en aðalinngangur bókasafnsins er með aðkomu frá Eyvindarstaðavegi. 

Saga safnsins

Á fundi hreppsnefndar Bessastaðahrepps þann 9. nóvember 1956 var tekin ákvörðun um stofnun bókasafns  á Álftanesi. Bókasafnið átti sér forvera, Lestrarfélag Bessastaðahrepps, sem var stofnað fyrir 1892 og er talið hafa verið fyrsta tómstundafélagið í Bessastaðahreppi. Lestrarfélagsins var fyrst getið í opinberum gögnum það sama ár þegar bókfærð var í bréfadagbók sýslumanns beiðni félagsins um leyfi til að halda dansleik. Upplýsingar um aðdraganda og stofnun bókasafnsins er að finna í bókinni Álftanessaga-Bessastaðahreppur, fortíð og sagnir, eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson sagnfræðing.

Júlíana K. Björnsdóttir á Grund (1908-1999) tók hið nýja bókasafn að sér eftir formlega stofnun.  María Birna Sveinsdóttir, dóttir Júlíönu og íbúi á Álftanesi, man eftir bókasafninu uppi á lofti á heimili foreldra sinna, Júlíönu og Sveins Erlendssonar (1904-1986), bónda og hreppstjóra en á Grund var safnið staðsett þar til það fluttist í nýjan Álftanesskóla árið 1979.

Við flutning safnsins í nýjan Álftanesskóla hófust almenn útlán þar og eftir flutninginn var safnið einnig nýtt sem skólasafn.  Í skólanum fengu bæði nemendur og almenningur betra aðgengi að bókakosti safnsins og um leið stækkaði það. Sigrid Kristinsson bókasafnsfræðingur tók við sem forstöðumaður bókasafnsins þegar það flutti í Álftanesskóla. Gunnhildur Manfreðsdóttir tók við safninu af Sigrid 1992 og veitti því forstöðu til loka árs 1998. Erla Lúðvíksdóttir tók þá við sem forstöðumaður og gegndi starfinu til 2006 en þá tók Guðrún Gísladóttir við og veitti safninu forstöðu til 1. ágúst 2016.  Útibússtjóri safnsins í dag er Sigríður Júlía Sighvatsdóttir. 

Sameining bókasafnanna

Þegar Garðabær og Álftanes sameinuðust í eitt sveitarfélag 1. janúar 2013 voru bókasöfn sveitarfélaganna sameinuð undir nafni Bókasafns Garðabæjar. Meginsafnið er staðsett á Garðatorgi en útibú er starfrækt í Álftanesskóla.  Útibúið á Álftanesi, Álftanessafn, er áfram rekið sem samsteypusafn, þ.e. almenningssafn og skólasafn í sameiginlegu húsnæði og þar er líflegt um að litast frá morgni til kvölds.