24. okt. 2014

Góð stemmning á haustvöku Kvennakórs Garðabæjar

Haustvaka Kvennakórs Garðabæjar var haldin í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli fimmtudagskvöldið 16. október sl. Góð mæting var á haustvökuna þar sem Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona var kynnir og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá í tali og tónum.
  • Séð yfir Garðabæ

Haustvaka Kvennakórs Garðabæjar var haldin í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli fimmtudagskvöldið 16. október sl. Góð mæting var á haustvökuna þar sem Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona var kynnir og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá í tali og tónum.  Hefð er orðin fyrir því að bæjarlistamaður Garðabæjar hverju sinni komi fram á haustvökunni og í ár var það Soffía Sæmundsdóttir myndlistarmaður og bæjarlistamaður Garðabæjar 2014 sem steig í pontu og talaði um verk sín og listsköpun og gestir gátu einnig skoðað nokkur verka hennar á staðnum. Nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar stigu á stokk og fyrst á svið var Þórhildur Þorleiksdóttir á trompet og svo steig bróðir hennar Helgi Þorleiksson á svið og lék á slagverk.  Áhorfendur klöppuðu vel og lengi að loknum flutningi hjá þessum efnilegu nemendum.  Ræðumaður kvöldsins var Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur sem flutti erindið ,,Miðaldra hippi á breytingarskeiði".  Kvennakór Garðabæjar steig á svið í byrjun og lok dagskrár og flutti vel valin lög bæði íslensk og erlend.  Kvennakórinn ásamt menningar- og safnanefnd Garðabæjar stóð að haustvökunni.

Kvennakórinn hefur byrjað haustið af krafti og hélt í æfingabúðir í byrjun september og kórinn söng nýverið á umdæmisþingi Rótary sem var haldið í Garðabæ í október.  Framundan er svo undirbúningur fyrir árlega jólatónleika kórsins sem verða haldnir miðvikudaginn 10. desember í Digraneskirkju.  Á fésbókarsíðu Kvennakórsins er hægt að fylgjast með því sem er á döfinni hjá kórnum og þar eru einnig fjölmargar skemmtilegar myndir frá haustvökunni.