19. jan. 2018

Góð mæting á íbúafund

Góð mæting var á íbúafundinn sem var haldinn miðvikudaginn 17. janúar sl. í sal Toyota í Kauptúni. Íbúafundurinn var sá fyrsti í röð íbúafunda sem verða haldnir næstu miðvikudaga út janúar og fyrstu vikuna í febrúar. Á þennan fyrsta fund voru íbúar í Urriðaholti, Vífilsstöðum og Hnoðraholti sérstaklega velkomnir en hverfaskipting íbúafundanna er eingöngu leiðbeinandi og allir íbúar eru velkomnir á þann fund eða fundi sem hentar þeim best

  • Íbúafundur Toyotasalur
    Íbúafundur Toyotasalur

Góð mæting var á íbúafundinn sem var haldinn miðvikudaginn 17. janúar sl. í sal Toyota í Kauptúni.  Íbúafundurinn var sá fyrsti í röð íbúafunda sem verða haldnir næstu miðvikudaga út janúar og fyrstu vikuna í febrúar. Á þennan fyrsta fund voru íbúar í Urriðaholti, Vífilsstöðum og Hnoðraholti sérstaklega velkomnir en hverfaskipting íbúafundanna er eingöngu leiðbeinandi og allir íbúar eru velkomnir á þann fund eða fundi sem hentar þeim best. 

Á fundinum var Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar með stutt innlegg í byrjun fundar því næst voru stuttar kynningar frá þeim Sunnu Sigurðardóttur þjónustustjóra Garðabæjar, Eysteini Haraldssyni forstöðumanni tækni- og umhverfissviðs, Bergljótu Sigurbjörnsdóttur forstöðumanni fjölskyldusviðs og Margréti Björk Svavarsdóttur forstöðumanni fræðslu- og menningarsviðs. Auk þeirra tóku einnig til máls Þorgerður Anna Arnardóttir, nýr skólastjóri Urriðaholtsskóla, Ingibjörg Valgeirsdóttir framkvæmdastjóri öldrunar- og heimaþjónustu í Garðabæ og Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri.  Megináhersla á fundinum var þó að heyra raddir fundargesta og fá fram fyrirspurnir og umræður í salnum auk þess sem íbúar gátu sent inn fyrirspurnir og óskir um umræðuefni fyrirfram.  

Íbúafundur á Álftanesi 24. janúar 

Næsti íbúafundur verður haldinn á Álftanesi miðvikudaginn 24. janúar kl. 17:30-19 í hátíðarsal Álftaness í íþróttamiðstöðinni.  Íbúar Álftaness eru sérstaklega velkomnir á þann fund en rétt er að taka fram að hverfaskipting fundanna er eingöngu leiðbeinandi og allir eru velkomnir á alla fundi.  Á dagskrá fundanna verður m.a. inngangur frá bæjarstjóra, rætt um nágrannavörslu, öryggi og þjónustu, farið yfir helstu framkvæmdir í nærumhverfi og skipulagsmál,  kynning á ákveðnum verkefnum fræðslu- og fjölskyldusviðs,  umræður og fyrirspurnir bæjarbúa. 

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar.

Fundir 31. janúar og 7. febrúar

Miðvikudaginn 31. janúar verður haldinn fundur í Sjálandsskóla þar sem íbúar Akrahverfis, Arnarness, Ása, Sjálands, Garðahverfis, Garðahrauns/Prýðishverfsi og Hleina eru sérstaklega velkomnir.  Síðasti fundurinn í fundaröðinni verður haldinn miðvikudaginn 7. febrúar en á þann fund eru íbúar Hæðahverfis, Flatahverfis, Byggða, Búða, Bæjargils, Fitja, Hóla, Garðatorgs, Grunda, Móa, Lunda, Mýra og Túna velkomnir.  Í fyrstu auglýsingu um íbúafundina vantaði Túnin inn á hverfaskiptingu fundanna vegna mistaka en Túnin eiga að vera með á fundinum 7. febrúar.  Íbúar í Túnunum eru að sjálfsögðu velkomnir á þann fund sem hentar þeim best. 

Um hvað vilt þú tala?

Íbúar geta sent inn fyrirspurnir fyrir hvern fund í gegnum sérstakt ábendingaform hér á vef Garðabæjar þar er líka hægt að senda inn tillögur að umræðuefnum fyrir fundina.  Allar ábendingar og/eða fyrirspurnir sem berast á fundunum verða skráðar niður og teknar til skoðunar og lagðar fyrir bæjarráð Garðabæjar.  Hver fundur verður sendur út beint á netinu í gegnum ,,facebook-live" á fésbókarsíðu Garðabæjar. 

Verið velkomin á íbúafundina.